Það fóru tveir leikir fram í Bestu deild kvenna í kvöld þar sem Breiðabliki tókst að saxa á forystu Vals á toppnum með góðum sigri gegn KR.
Það voru Valskonur sem misstigu sig á heimavelli gegn sterku liði Stjörnunnar. Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði eftir hálftíma leik en Cyera Makenzie Hintzen jafnaði með flottu marki skömmu fyrir leikhlé.
Leikurinn var þokkalega opinn og skemmtilegur en hvorugu liði tókst að krækja í sigurmark í seinni hálfleik. Valskonur voru betri aðilinn eftir leikhléð en Stjörnustúlkur áttu flottar rispur og vörðu markið sitt vel.
Lokatölur 1-1 og er Valur á toppnum með 26 stig eftir 11 umferðir. Þetta var fyrsta jafntefli liðsins í sumar.
Stjarnan er í þriðja sæti með 20 stig.
Valur 1 - 1 Stjarnan
0-1 Katrín Ásbjörnsdóttir ('30)
1-1 Cyera Makenzie Hintzen ('42)
Breiðablik er þá komið með 24 stig, tveimur stigum eftir Val, eftir góðan sigur á KR.
Karítas Tómasdóttir gerði eina markið í nokkuð jöfnum fyrri hálfleik. Hún skoraði eftir flott einstaklingsframtak þar sem hún lagði af stað með boltann frá miðjuboganum.
KR fékk góð færi og skaut meðal annars í slá en inn vildi boltinn ekki og tvöfaldaði Karítas forystu heimakvenna um miðbik seinni hálfleiks. Í þetta sinn skallaði hún hornspyrnu Öglu Maríu Albertsdóttur í netið.
Agla María skoraði svo sjálf þremur mínútum síðar eftir stoðsendingu frá Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur en þær tvær voru báðar með íslenska landsliðinu á EM.
Flóðgáttirnar opnuðust við annað mark Karítasar og áttu bæði Clara Sigurðardóttir og Laufey Harpa Halldórsdóttir eftir að skora fyrir leikslok. Lokatölur 5-0 fyrir Breiðablik.
KR er í fallsæti með 7 stig eftir 11 umferðir og þarf að sækja sér sigra sem fyrst til að berjast um að bjarga sér frá falli.
Breiðablik 5 - 0 KR
1-0 Karitas Tómasdóttir ('35)
2-0 Karitas Tómasdóttir ('72)
3-0 Agla María Albertsdóttir ('75)
4-0 Clara Sigurðardóttir ('82)
5-0 Laufey Harpa Halldórsdóttir ('87)