Bayern setur meiri kraft í viðræður við Musiala - Newcastle fylgist með Sane - Barcelona vill Kimmich
banner
   fim 28. september 2023 14:31
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Leikmenn Gróttu spyrja spurninga og óska eftir svörum
Völlurinn hreinlega hættulegur
Lengjudeildin
Vivaldivöllurinn á Seltjarnarnesi.
Vivaldivöllurinn á Seltjarnarnesi.
Mynd: Brynjar Óli Ágústsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Leikmenn Gróttu hafa tekið sig til og skrifað opið bréf til þeirra sem bera ábyrgð á íþróttamálum á Seltjarnarnesi. Þar á meðal eru fyrirliðar meistaraflokks karla og kvenna: Arnar Þór Helgason og Tinna Bjarkar Jónsdóttir.

Í opna bréfinu er farið yfir áhyggjur leikmanna af gervigrasvellinum og aðstöðu í kringum hann. Gervigrasið sé orðið ónýtt og mikil meiðslahætta sé vegna þess.

„Þetta er alls ekki Gróttu sæmandi og þarf að finna lausnir á þessum vanda strax og grípa til aðgerða áður en það verður einfaldlega um seinan," segir m.a. í bréfinu sem endar á þessum spurningum: „Hver eru plönin fyrir uppbyggingu á knattspyrnuaðstöðu á Nesinu? Verður gervigrasið endurnýjað? Með vökvunarkerfi? Verður vallarhúsið, sem er löngu sprungið, stækkað? Verður byggt yfir litla völlinn? Við óskum eftir svörum."

Opna bréfið
Kæru Seltirningar,

Við skrifum hér opið bréf til þeirra sem bera ábyrgð á íþróttamálum í bænum. Og til annarra sem láta sig málin varða.

Fyrir ykkur sem þekkið okkur ekki þá erum við öll fædd og uppalin á Seltjarnarnesi. Við höfum spilað fyrir Gróttu nær allt okkar líf og eigum samanlagt um 700 meistaraflokksleiki fyrir okkar kæra félag.

Við köllum eftir svörum við stórum og mikilvægum spurningum sem brenna á vörum margra. Gervigrasvöllur okkar Gróttufólks er orðinn hættulegur - göt eru byrjað að myndast í völlinn og grasið hefur fyrir löngu misst sína réttu lögun. Fyrir utan það er ekki vökvunarkerfi undir vellinum og því er gervigrasið skraufþurrt þegar ekki hefur rignt. Skipt var um gras á Vivaldivellinum árið 2016 og miðað við notkunina, sem er mikil allan ársins hring, þá er grasið fyrir löngu komið á tíma. Við sem æfum þarna daglega teljum að það hefði átt að endurnýja grasið árið 2021 eða 2022.

Nú er 2023 komið langt á leið og það sem við heyrum er að það komi ekki nýtt gras fyrr en KANNSKI árið 2025. Það slitnuðu tvö krossbönd á vellinum í byrjun tímabils 2022 og er tímaspursmál hvenær sambærileg meiðsli munu líta dagsins ljós af völdum gervigrassins. Það tekur um 12 mánuði að jafna sig á krossbandsslitum. Það ætti að gera allt til að fyrirbyggja svona alvarleg meiðsli. Bráðefnilegir ungir leikmenn spila í báðum meistaraflokkum Gróttu og að bjóða þeim upp á svona lélegan völl hjálpar framförum þeirra ekki.

Hér má sjá upplýsingar um þá uppbyggingu sem hefur verið á aðstöðu til knattspyrnuiðkunar síðustu árin hjá öðrum félögum. Þetta er örugglega ekki tæmandi listi en sýnir hvað er í gangi. Við erum hrædd um að við séum að dragast vel afturúr.

Gervigrasið er ekki það eina sem er komið fram yfir síðasta söludag, en eins og flestum foreldrum iðkenda Gróttu er nokkuð ljóst þá er Vallarhúsið löngu sprungið. Vinnuaðstaða þjálfara er mjög takmörkuð. Yngri flokkar félagsins hafa aðeins afnot af tveimur klefum. Aðstaðan er fyrir neðan allar hellur miðað við það mikla fagfólk sem vinnur í kringum félagið og þá frábæru iðkendur sem eru hjá Gróttu. Eins og sjá má á myndunum þá þurfa krakkar á öllum aldri að skipta um föt og skó fyrir utan Vallarhúsið, inni í bílskúr eða úti á gangi þá daga sem leikir eru á vellinum að kvöldi. Þetta er alls ekki Gróttu sæmandi og þarf að finna lausnir á þessum vanda strax og grípa til aðgerða áður en það verður einfaldlega um seinan.

Hvað meinum við með "áður en það verður um seinan"? Grótta er eitt minnsta félagið á höfuðborgarsvæðinu en teflir þrátt fyrir það fram meistaraflokkum sem hafa náð eftirtektarverðum árangri og býður upp á góða þjálfun fyrir öll börn og unglinga. Starfið hefur verið knúið áfram af fólki með stórt Gróttuhjarta en það þarf að hlúa að þessu fólki.

Við endum þetta á því að spyrja: Hver eru plönin fyrir uppbyggingu á knattspyrnuaðstöðu á Nesinu? Verður gervigrasið endurnýjað? Með vökvunarkerfi? Verður vallarhúsið, sem er löngu sprungið, stækkað? Verður byggt yfir litla völlinn? Við óskum eftir svörum.

Gróttukveðja,
Arnar Þór, Kristófer Melsteð, Kristófer Orri, Pétur Theodór og Tinna Bjarkar
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner