fös 28. október 2022 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Guðrún mun enda á toppnum í einum tölfræðiflokknum
Guðrún Arnardóttir.
Guðrún Arnardóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingibjörg Sigurðardóttir gefur áritanir.
Ingibjörg Sigurðardóttir gefur áritanir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðvörðurinn Guðrún Arnardóttir er sá leikmaður í sænsku úrvalsdeildinni sem hefur átt langflestar sendingatilraunir á þessari leiktíð.

Þegar tvær umferðir er Guðrún búin að eiga 1746 sendingatilraunir, en það er tæplega 200 meira en næsti leikmaður. Hún stendur öðrum leikmönnum framar í sænska boltanum og orðið nokkuð ljóst að hún mun enda sem sá leikmaður sem á flestar sendingartilraunir í deildinni þetta tímabilið.

Hún er að eiga tæplega 70 sendingatilraunir í leik og það sem meira er hún í fimmta sæti af öllum leikmönnum deildarinnar hvað varðar sendingarhlutfall; af öllum sendingatilraunum hennar þá hafa 90,66 prósent þeirra farið á samherja. Mjög vel gert hjá henni.

Rosengård, lið Guðrúnar, er búið að tryggja sér sænska meistaratitilinn þegar tvær umferðir eru eftir en Guðrún hefur verið í lykilhlutverki hjá liði sínu.

Það vakti nokkra athygli fyrr á þessu ári þegar Guðrún missti sæti sitt í byrjunarliðinu hjá A-landsliðinu. „Ég bara vonast til að fá betra uppspil úr vörninni. Það er svona stærsta breytingin sem ég er að vonast eftir," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, um breytinguna á þeim tímapunkti.

Ingibjörg líka að gera vel
Ingibjörg Sigurðardóttir kom inn í liðið og hefur haldið sætinu í síðustu leikjum. Hún hefur líka verið að skila boltanum vel frá sér með sínu liði, Vålerenga í Noregi. Þó ekki alveg eins vel og Guðrún. Ingibjörg er með 65,59 sendingatilraunir í leik með Vålerenga og er að skila boltanum á samherja í 86,58 prósent tilvika. Það telst ansi gott.

Þess ber að geta að Ingibjörg á fleiri sendingar fram völlinn (29,06 gegn 23,26) en Guðrún hittir aðeins oftar á samherja þegar hún reynir að senda fram völlinn (80,55 prósent gegn 78,7 prósent).

Ingibjörg er í fjórða sæti af öllum leikmönnum norska deildarinnar þegar kemur að sendingum fram völlinn (e. progressive passes) sem er mjög fínn kostur að hafa.

Það er gríðarleg samkeppni um stöðuna við hlið Glódísar Perlu Viggósdóttur í hjarta varnarinnar hjá landsliðinu. Bæði Guðrún og Ingibjörg eru að spila á háu stigi og eru að gera það vel.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner