Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 28. október 2022 22:00
Ívan Guðjón Baldursson
Verkamönnum í Katar hent út fyrir HM
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon

Yfirvöld í Katar eru búin að tæma hundruði íbúða sem hýstu verkamenn í kringum heimsmeistaramótið sem hefst í seinni hluta nóvember.


Íbúðirnar eru tæmdar til að skapa pláss fyrir ferðamenn sem munu leggja leið sína til Katar að horfa á keppnina.

Fréttamenn Reuters ræddu við verkamennina sem var hent út en margir þeirra höfðu ekki hugmynd um fyrirætlanir yfirvalda og hafa í engin hús að venda.

Þetta er gert tæpum fjórum vikum fyrir upphafsflautið á HM og hafði fréttastofa Reuters samband við katörsku ríkisstjórnina. Talsmaður ríkisstjórnarinnar sagði að brottvísanir úr íbúðum væru þáttur í endurskipulagningu ákveðinna svæða innan Doha, höfuðborgar Katar. Þær hefðu ekkert með HM að gera.

Verkamennirnir sem fréttastofan ræddi við neituðu að segja til nafns af hræðslu við að hljóta refsingu frá vinnuveitendum sínum eða yfirvöldum.

Þeir hafa verið heimilislausir í tvo daga síðan þeim var hent út með tveggja klukkustunda fyrirvara. Einn þeirra var ekki heima þegar brottvísunin átti sér stað og kom alltof seint til að sækja eigur sínar. Búið er að læsa byggingunni og er hann allslaus sem stendur og ekki sá eini í þessari stöðu.

Reuters hafði upprunalega samband við knattspyrnusambandið í Katar en það benti á ríkisstjórnina. Þá var einnig haft samband við FIFA sem neitaði að gefa svar.


Athugasemdir
banner
banner