Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   þri 28. nóvember 2023 06:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Í hvaða sæti setjum við okkar fólk?
Hugi Sævarsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Greinarhöfundur er hér hægra megin á myndinni.
Greinarhöfundur er hér hægra megin á myndinni.
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Aðsend
Ég vil byrja á því að óska íþróttafólki í Mosfellsbæ til hamingju með frábært keppnistímabil sem nú er að baki.

Flestar greinar luku sínu tímabili í byrjun sumars, aðrar í haust. Eins og gengur þá náðu sumir sínum markmiðum, aðrir ekki. Sama hver niðurstaðan var þá vonar maður að fólk haldi áfram að rækta líkama og sál enda margsannað að íþrótta- og tómstundastarf er gulls ígildi. Út frá öllum hliðum, beinni þátttöku sem og óbeinni.

Á bak við afraksturinn liggur fjöldinn allur af æfinga- og keppnisstundum. Ekki skal gleyma starfsliði og fórnfúsum sjálfboðaliðum sem í raun gera þetta allt saman mögulegt. Já og auðvitað frábærum stuðningsmönnum. Án þeirra væri þetta ekki jafn skemmtilegt, langt því frá.

Í þessari grein beini ég spjótunum að aðstöðumálum á knattspyrnuvöllum bæjarins. Vinsælustu íþróttagreinarinnar á landinu og reyndar í heiminum öllum. Við skulum bara segja það strax, ástandið er dapurlegt í Mosfellsbæ og hefur verið þannig um árabil. Það væri reyndar hægt að skrifa mun lengri pistil en þennan um nauðsynlegar úrbætur á ýmsum tengdum þáttum, eins og þörf á stærra æfinga- og keppnissvæði eða boðlegri félagsaðstöðu (sem er í raun engin).

Bærinn okkar dafnar á ýmsum sviðum og vex ört, en nú eru tæplega 14 þúsund íbúar í Mosfellsbæ. Mikill áhugi er á íþróttastarfi en í bænum stunda rétt tæplega 1.000 manns æfingar í knattspyrnu hjá Aftureldingu og venslafélögum. Hlutfallið um 7,5% sem ætti að gefa þessum málaflokki mikið vægi og forgang en svo er ekki.

Frá því að ég flutti í bæinn fyrir um aldafjórðungi hefur aðstaðan verið nánast eins fyrir knattspyrnuna. Bæjarfélagið hefur dregist gríðarlega aftur úr. Meira að segja mun smærri bæjarfélög sinna íþróttinni af meiri myndarskap og metnaði.

Já, og hvað með aðstöðumál fyrir áhorfendur? Í Fellinu eru engin sæti fyrir áhorfendur og eins þröngt rými og hugsast getur. Á keppnisvellinum sjálfum þar sem meistaraflokkarnir og yngri flokkarnir spila er einvörðungu boðið upp á sæti fyrir 300 manns. Í sumar var algeng aðsókn vel yfir 500 manns á leikjum meistaraflokks karla en dæmi um allt að 1.000 manna áhorfendafjölda.

Ég vil benda á að félagið býður ekki upp á stúku eins og tíðkast hjá mörgum íþróttafélögum. Það er að segja yfirbyggða áhorfendapalla. Aukinheldur eru sætin neðarlega og veita ekki þá yfirsýn yfir vallarsvæðið eins og algengt er. Salernis- og snyrtiaðstaða er fábrotin og svæðið ekki boðlegt hreyfihömluðum. Vallarstarfsmenn og fjölmiðlamenn sitja í þröngum „reddingagámi“. Tossalistinn er lengri, en læt þetta duga.

Samkvæmt upplýsingum af vef KSÍ var keppnisvöllur UMFA í knattspyrnu með fæst áhorfendasæti á meðal þeirra liða sem tóku þátt í Lengjudeildinni síðastliðið sumar. Sláandi og segir í raun allt sem segja þarf um stöðu mála.

Eins og sjá má á töflunni þá eru áhorfendasætin meira að segja talsvert fleiri hjá Ægi í Þorlákshöfn en í Mosfellsbænum. Sveitarfélagið Ölfus telur um 2.500 íbúa, tæplega 20% af fjölda íbúa Mosfellsbæjar. Því er rétt að velta fyrir sér og spyrja: Í hvaða sæti setjum við okkar fólk?

Brettum nú upp ermarnar og setjum strax á dagskrá úrbætur á þessum málum í okkar fallega heilsueflandi bæjarfélagi sem hefur á að skipa frábæru íþrótta- og stuðningsfólki sem á mun betra skilið.

Hugi Sævarsson
Viðskiptafræðingur og íþróttaáhugamaður
Athugasemdir
banner
banner