Sean Wallace hjá Press and Journal vill að skoska félagið Aberdeen gefi Kjartani Má Kjartanssyni tækifæri með aðalliðinu á næstu vikum.
Aberdeen keypti Kjartan frá Stjörnunni í sumar en hann hefur ekki enn fengið að spreyta sig.
Wallace veltir því fyrir sér af hverju hann er ekki enn búinn að fá tækifærið enda með gríðarlega reynslu með Stjörnunni og er þá í U21 árs landsliði Íslands.
Hann nefnir erfiða og þétta leikjadagskrá Aberdeen næstu mánuði og að nú gæti verið rétti tíminn til að gefa KJartani og öðrum efnilegum strákum sénsinn.
Talar hann þá um að það vanti neista inn á miðsvæðið og vænginn, og að það haldi vel í gildi Aberdeen að kaupa unga og efnilega leikmenn með það í huga að selja þá fyrir mikinn hagnað, en til þess þarf auðvitað að spila þeim.
Wallace segir að leið Kjartans gæti minnt á Lewis Ferguson sem fór til Bologna frá Aberdeen árið 2022. Ferguson hefur verið með öflugustu miðjumönnum ítölsku deildarinnar síðan og er fastamaður í skoska landsliðinu.
Kjartan er reglulega í hópnum hjá aðalliðinu en eins og áður segir hefur hann ekki enn spilað mínútu þrátt fyrir að hafa heillað á undirbúningstímabilinu.
Ástæðan ku vera slakt gengi Aberdeen í byrjun leiktíðar og að það væri erfitt að koma þeim inn í hlutina þegar þurfti að rétta aðeins úr kútnum, en nú virðist liðið komið á betri stað og aðeins betri tímasetning til að koma ungu leikmönnunum inn í liðið.
Athugasemdir




