Lewis-Skelly á blaði fjögurra félaga - Mörg stórlið vilja ungstirni Hertha Berlin - Casemiro gæti fengið nýjan samning - Toney til Englands?
   mið 12. nóvember 2025 14:17
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimir orðaður við Indónesíu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Írlands, var á dögunum orðaður við landsliðsþjálfarastafið í Indónesíu. Það var Irish Examiner sem greindi frá. Hollendingurinn Patrick Kluivert var látinn fara sem þjálfari Indónesíu í síðasta mánuði þegar ljóst varð að liðið kæmist ekki á HM.

Heimir var spurður út í meintan áhuga á fréttamannafundi á dögunum. Hann segir að stefnan sé að vera áfram þjálfari írska liðsins þegar kemur að umspilinu um sæti á HM næsta sumar, en umspilið verður spilað í mars.

Framundan hjá Írum er heimaleikur gegn Portúgal og útileikur gegn Ungverjalandi. Portúgal er í efsta sæti riðilsins með tíu stig, Ungverjar eru með fimm, Írar fjögur og Armenar þrjú. Það er því ljóst að ef Írland tapar gegn Portúgölum og Ungverjar vinna á sama tíma gegn Armenum þá eru vonir Íra um 2. sætið í riðlinum, og möguleikinn um sæti í umspilinu, úr sögunni.

„Planið mitt er að vera hér þangað til í júní (þegar HM byrjar). Ekkert annað skiptir máli. Eftir þessa leiki svörum við þessum spurningum, en núna einbeitum við okkur að Portúgal og svo Ungverjalandi. Svo fer einbeitingin á umspilið," sagði Heimir sem er samningsbundinn Írlandi þar til vonin um HM sætið er úti.

Hann tók við sem þjálfari liðsins sumarið 2024 eftir að hafa verið með jamaíska landsliðið þar á undan.

„Auðvitað hugsar maður um að það sé möguleiki að þetta sé síðasti glugginn, en einbeitingin er á að vera hérna allavega þangað til í júní/júlí næsta sumar," sagði Heimir.

Indónesía er í 119. sæti á heimslista FIFA. Írland er í 62. sæti og Ísland er í 74. sæti.

Heimir var í teymi með Lars Lagerback þegar karlalandslið Íslands komst í fyrsta sinn á stórmót. Ísland fór alla leið í 8-liða úrslit á EM í Frakklandi. Heimir var svo aðalþjálfari liðsins á HM 2018 í Rússlandi.
Athugasemdir
banner