„Við ætlum ekki að gera neitt öðruvísi en það sem við höfum gert í um 90% leikja í ár. Við höldum okkur við okkar leikstíl, og við búumst við því sama frá þeim. Þær hafa spilað 4–4–2, svo þetta verður skemmtileg viðureign. Þetta ætti að vera góður leikur á milli tveggja mjög góðra fótboltaliða. Ég held að þær muni sýna meira en Spartak gerði. Þetta verður spennandi." Sagði Nik Chamberlain, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks, fyrir leik liðsins gegn Fortuna Hjørring í Evrópubikarnum á morgun.
Nik ræddi við Fótbolta.net í aðdraganda leiksins, sem er fyrri leikur liðanna í tveggja leikja einvígi í Evrópubikarnum. Leikurinn á morgun hefst klukkan 18:00 og fer fram á Kópavogsvelli.
„Sem betur fer eru Fortuna-leikirnir á Wyscout, þannig við höfum getað horft vel á þá. Þær eru sterkari en Spartak, jafnvel sterkari en við á pappír. Danska deildin er stimpluð hærri en okkar. Þannig að við förum aðeins inn í þetta sem “underdogs”, sem er óvenjulegt fyrir okkur. Aðeins Twente-leikurinn í ár hefur verið þannig. Við vitum að það verða kaflar þar sem við höfum boltann og kaflar þar sem þær hafa boltann. Þetta snýst um aga þegar við erum án bolta og að grípa tækifærin þegar við höfum boltann."
Það er næstum mánuður síðan íslenska deildin kláraðist. Hvernig hefur gengið að halda fókus á æfingum?
„Við gáfum leikmönnunum smá frí, nokkra daga til að jafna sig og svo fimm til sex daga algjört frí. Þær þurftu það bæði andlega og líkamlega. Við höfum nánast verið á fullu í meira en ár. Þegar við mættum aftur var byrjað rólega og passað upp á álag og væntingar. En síðasta vikan hefur verið á allt öðru leveli, í undirbúningi fyrir leikinn. Æfingarnar hafa verið mjög góðar, mikill hraði, gott flæði í boltanum. Svo bæði líkamlega og andlega þá eru við tilbúin."
„Þú getur greint lið endalaust, en þar til þú spilar á móti þeim í raun eins og gegn Spartak þá veistu aldrei 100% hvernig liðin eru. Fyrstu 15 mínúturnar fara bara í að finna tempóið, stilla okkur inn, og aðlagast. Bæði lið munu hafa kafla þar sem þau stjórna. Þær eru mjög gott spilandi lið, þolinmóðar í uppbyggingunni, alveg eins og við. Þetta verður mjög áhugaverður fótboltaleikur. Vonandi nýtum við það að vera á heimavelli fyrst, rétt eins og gegn Spartak."
Hver væru draumaúrslit á morgun?
„Bara sigur, einfaldlega. Það væri frábært að klára síðasta heimaleik ársins 2025 með sigri. Vonandi mæta stuðningsfólkið líka, þetta er Evrópuleikur. Kópacabana (stuðningsmannasveit Breiðabliks) sögðu mér fyrir nokkrum vikum að þeir myndu mæta, svo ég reikna með þeim. Ég veit að það verður kalt, en ef þeir fá sér nokkra drykki og dansa aðeins í stúkunni þá hlýnar þeim! Við viljum bara góðan leik, góða mætingu og úrslit sem setja okkur í góða stöðu fyrir leikinn í Danmörku






















