Arsenal og Chelsea vilja Isak - Þrír orðaðir við Liverpool - Potter orðaður við Wolves og West Ham
banner
   fim 28. nóvember 2024 14:00
Elvar Geir Magnússon
Glódís Perla: Þetta eru lið sem við viljum bera okkur saman við
Icelandair
Glódís Perla Viggósdóttir á æfingu Íslands á Pinatar svæðinu.
Glódís Perla Viggósdóttir á æfingu Íslands á Pinatar svæðinu.
Mynd: KSÍ
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Kvennalandsliðið leikur vináttulandsleik gegn Kanada á Pinatar vellinum á Spáni á morgun, föstudag. Leikurinn hefst kl. 18:00 að íslenskum tíma.

Íslenska liðið hefur verið við æfingar á Pinatar svæðinu frá því á þriðjudag og eru allir leikmenn tilbúnir í leikinn gegn Kanada. Ísland mætir svo Danmörku í öðrum vináttulandsleik á sama velli á mánudag.

„Leikurinn leggst mjög vel í mig. Kanada er með hörkulið sem stóð sig virkilega vel á Ólympíuleikunum. Þetta verður hörkuleikur fyrir okkur. Þær eru líkamlega sterkar, mjög góðar í að sækja hratt og eru beinskeyttar, sterkar og fljótar," segir Glódís Perla Viggósdóttir fyrirliði, í viðtali við samfélagsmiðla KSÍ, um leikinn gegn Kanada.

Hún segir þessa vináttulandsleiki mikilvæga fyrir undirbúning að komandi verkefnum.

„Ótrúlega mikilvægt. Það hjálpar okkur að bæta okkar leik að fá að prófa okkur gegn liðum sem eru í hæsta klassa. Þetta eru lið sem við viljum bera okkur saman við. Þá þurfum við að halda áfram að bæta okkar leik og vinna í að geta spilað okkar leik sama hver mótherjinn er."

Þetta verður góður undirbúningur fyrir erfiðan riðil í Þjóðadeildinni eftir áramót, þar sem Ísland mun etja kappi við Frakkland, Noreg og Sviss. Hvernig lýst Glódísi á riðilinn?

„Gríðarlega vel. Það er ekki hægt að fá léttan riðil í A-deild, það er bara skemmtilegt. Þetta eru skemmtilega ólíkir og verðugir mótherjar. Þetta verður hörkuriðill og við erum með okkar markmið um að verða í topp tveimur og það hefur ekkert breyst."

Förum í þennan leik til að vinna
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari var einnig í viðtali og hann segir að hópur sinn sá klár í slaginn.

„Staðan er góð. Það eru allar heilar og klárar og ekki yfir neinu að kvarta. Kanada er virkilega gott lið sem sýndi það á Ólympíuleikunum í sumar hversu góðar þær eru. Það verður hörkuleikur og við verðum að eiga góðan leik til að vinna þær. Það er að sjálfsögðu markmiðið okkar, við förum í þennan leik til að vinna," segir Þorsteinn en hann ætlar að dreifa spiltímanum.

„Í grunninn verður þetta mjög svipað og við gerðum í Bandaríkjunum. Það verður skipt á milli leikja og við leggjum upp með að engin spili 90 mínútur í báðum leikjum. Það verður talsvert breytt milli leikja."

„Það er virkilega gott fyrir okkur að halda áfram að kljást við lið sem eru í hæsta klassa. Það hjálpar okkur bara að verða betri að spila alltaf erfiða leiki, leiki sem við þurfum að hafa virkilega fyrir til að eiga möguleika að vinna. Þetta er fínn undirbúningur undir Þjóðadeildina."


Athugasemdir
banner
banner
banner