„Nei, ég held nú ekki eftir gengi síðasta tímabils, það kveikti aðeins í manni aftur. Ég er búinn að segjast ætla hætta síðustu fjögur ár en ákvað að hætta því leikriti núna og vera bara með frá byrjun," sagði Bjarki Baldvinsson við Fótbolta.net eftir að hafa skrifað undir áframhaldandi samning við Völsung í gær.
Bjarki er langleikjahæsti leikmaður í sögu Völsungs, næstur á eftir honum er þjálfarinn Aðalsteinn Jóhann Friðriksson.
Bjarki er langleikjahæsti leikmaður í sögu Völsungs, næstur á eftir honum er þjálfarinn Aðalsteinn Jóhann Friðriksson.
„Þetta er gaman og þegar gengur vel þá er ennþá skemmtilegra. Ég held þetta verði gott sumar hjá okkur. Það hefur líka alveg helling að segja að Elfar Árni er kominn heim. Við spiluðum saman upp alla yngri flokkana og þetta gefur auka „boost". Það er frábært að fá hann. Ég ætla ekki að neita því að ég hef reynt að fá hann í Völsung, við erum bestu vinir."
Hversu stórt er þetta fyrir Völsung?
„Ég held þetta breyti öllu. Hann er búinn að gera þetta í öll þessi ár í efstu deild, ég er viss um að hann á eftir að lyfta öllu upp."
Seturðu kröfu á hann að fylla upp í öll mörkin sem Jakob Gunnar skilur eftir sig?
„Ekki kannski öll mörkin, en ég held að hann gefi okkur margt sem Jakob hafði ekki. Það væri mjög ósanngjarnt að krefja hann um að fylla alveg upp í þau mörk."
Völsungur kynnti Elfar Árna Aðalsteinsson sem nýjan leikmann í gær, þjálfarinn framlengdi sinn samning og Bjarki skrifaði undir ásamt Arnari Pálma Kristjánssyni og Rafnari Mána Gunnarssyni.
„Það er algjörlega nauðsynlegt að halda Arnari og Rafnari sem eru búnir að bera þetta uppi síðustu ár ásamt fleirum. Það er mjög gott, þetta eru allt Völsungar - Húsvíkingar. Það er spennandi sumar framundan," sagði Bjarki að lokum. Völsungur fór upp úr 2. deild í sumar og verður í Lengjudeildinni næsta sumar.
Athugasemdir