Luzhniki leikvangurinn sem verður notaður á HM í Rússlandi. Búið er að eyða góðum fjárhæðum í uppbyggingu þar.
Stærstu fréttirnar hafa væntanlega ekki farið fram hjá neinum, t.d. þegar Neymar varð dýrasti leikmaður sögunnar og að karlalandsliðið tryggði knattspyrnusambandinu gríðarlega fjármuni með því að komast á HM.
Hér eru þó fimm áhugaverð tíðindi af fjármálahlið fótboltans sem fóru kannski fram hjá ykkur.
Modena fór á hausinn
Munið þið eftir Modena? Þeir léku í Seríu A upp úr aldamótum og unnu meðal annars frækinn sigur á Ólympíuleikvanginum í Róm. Eftir stutta dvöl á meðal þeirra bestu féll liðið þó í B deildina og molnaði smátt og smátt undan klúbbnum, fjárhagslega, í leikmannahópnum og allri aðstöðu. Þó gamla hetjan Hernan Crespo hafi tekið við liðinu árið 2015 féll liðið niður í þriðju efstu deild. Stjórnendur réðu ekki við að greiða leikmönnum laun og þegar þetta 105 ára gamla félag hafði skrópað í fjóra leiki í röð var það rekið úr deildakeppninni og tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem fjárhagsvandræði fylgja komu Crespo en frægt er þegar hann varð dýrasti leikmaður heims með félagsskiptunum frá Parma til Lazio um aldamótin og bágt fjárhagsástand Rómverjanna í kjölfarið.
174 milljónir punda til umboðsmanna
Umboðsmaður dúkkar tæplega upp í teignum og skorar sigurmark í uppbótartíma en hann hækkar þó í verði rétt eins og leikmennirnir. Ensku úrvalsdeildarliðin greiddu umboðsmönnum og –skrifstofum um 174 milljónir punda á síðasta leiktímabili, en sú upphæð jafngildir árlegum útgjöldum íslensku utanríkisþjónustunnar og dómskerfisins að auki.
Það sem af er þessu ári er það Constantin Dumitrascu sem þénað hefur mest, eða um 80 milljónir punda. Hann gæti átt von á enn meiru á næstunni en svo vill til að hann er umboðsmaður Philippe Coutinho. Jorge Mendes, umboðsmaður Christiano Ronaldo og fleiri stórstjarna, hefur hefur það einnig ágætt, en Forbes áætlar að þóknanir til hans á árinu nemi um 58 milljónum punda.
10 milljarða króna lögfræðikostnaður FIFA
Spillingarmálin hjá FIFA voru að sjálfsögðu enn í umræðunni en minna fór fyrir einni áhugaverðri línu í ársreikningi sambandsins. Fyrir utan þann skaða sem útbreidd og langvarandi spilling hefur valdið sambandinu er áætlað að beinn lögfræðikostnaður þess vegna rannsóknar á málunum nemi rétt tæpum 10 milljörðum króna á árunum 2015 – 2018. Dýr ætlar Blatter að reynast.
Ætli næsta rannsókn verði ekki á því hvernig þessi upphæð gat orðið svona há? Hver ætli lögfræðikostnaðurinn við þá rannsókn verði? Og svo koll af kolli.
Leikvangarnir í Rússlandi eru víst komnir langt fram úr áætlun
Það styttist í HM. Maður lifandi. Þetta verður nú eitthvað. En hvað um það, Rússar ætla að verja ótrúlegum upphæðum til keppninnar. Sé miðað við landsframleiðslu Rússlands og Íslands jafngildir þetta því að Íslendingar væru 21 milljarði króna til íþróttamóts. Fréttir af framúrkeyrslu við framkvæmdir eru hættar að koma áhugafólki um stórmót á óvart en þegar nýjar tölur bárust frá Rússlandi á árinu leit skyndilega út fyrir að útgjöldin hafi hreinlega ekki aukist nema um örfáa tugi prósenta. Raunar virtist sem framúrkeyrslan yrði minni en áður hafði verið spáð.
Þegar litið var nánar á tölurnar komst hið sanna fljótleg í ljós. Í erlendum fjölmiðlum var kostnaðurinn tilgreindur í dollurum eða evrum, en frá því framkvæmdir hófust hefur rússneska rúblan hrunið í verði gagnvart öðrum myntum. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir því sést að framúrkeyrslan er heil 150%.
Bannað að blóta
Wham! völlurinn er staðsettur í miðju íbúðahverfi í Accrington, nágrannasveitafélagi Burnley. Fjárhagsvandræði félagsins (Stanley) eru bersýnileg en ástand vallarins er langt í frá ásættanlegt fyrir lið í fjórðu efstu deild á Englandi.
Nú á heldur betur að hysja upp um sig um reisa glæsilega nýja stúku með 1.500 sætum. Framkvæmdir eru þó ekki enn hafnar, rúmu ári eftir að áformin voru kynnt íbúum í hverfinu, meðal annars vegna viðbragða nágrannanna. Sett hefur verið út á skort á samráði, að stúkan verði ljót og sérstaklega er tekið fram að íbúar í nágrenni nýju stúkunnar hafi áhyggjur af því að blótsyrði kunni að heyrast frá vellinum.
Ef þær aðfinnslur verða þó til þess að framkvæmdir dragast mikið lengur get ég ekki ímyndað mér annað en að sprenging verði í notkun blótsyrða og þeim rakleitt ausið yfir þessa sömu nágranna.
Björn Berg Gunnarsson fræðslustjóri Íslandsbanka
Athugasemdir