Vinicius Jr færist nær því að vera áfram hjá Real - Liverpool gæti gert janúartilboð í Semenyo
   fös 28. nóvember 2025 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hefur verndað Viktor eftir leiðinlega reynslu með Orra
Neestrup og Orri Steinn.
Neestrup og Orri Steinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Bjarki.
Viktor Bjarki.
Mynd: EPA
Viktor Bjarki Daðason var á skotskónum á miðvikudagskvöld þegar FCK vann Kairat Almaty í Meistaradeildinni. Viktor skoraði fyrsta mark leiksins í 4-3 sigri danska liðsins. Það var hans annað mark í Meistaradeildinni og er hann nú sá yngsti í sögunni til að skora sitt annað mark í keppnina. Viktor er fæddur árið 2008 og er uppalinn hjá Fram. Hann var keyptur til FCK sumarið 2024 og skoraði sitt fyrsta mark í Meistaradeildinni gegn Dortmund fyrr í vetur.

Jacob Neestrup, þjálfari FCK, ræddi um Viktor Bjarka við fjölmiðla eftir leikinn.

„Þetta er alvöru dæmi. Uss. Við munum ekki segja neinum. Þetta er alvöru dæmi," sagði Neestrup léttur um metið. „Ef við gerum það þá verður hann örugglega bara seldur fljótlega," sagði þjálfarinn og brosti.

Hann útskýrði svo að hann hefði farið sparlega með unga Íslendinginn.

„Það er erfitt að spila fyrir FCK. Sem betur er eru miklar væntingar gerðar til okkar - algjörlega sanngjarnt - en það er ekki alltaf skemmtilegt að spila fyrir FCK. Ef hlutirnir falla ekki fyrir þig, þá verður þú að vera búinn til úr einhverju sérstöku."

„Kannski hefði ég átt að gefa honum tækifæri fyrr og það hefði kannski farið vel. En ef það hefði ekki farið vel þá hefði þessi 17 ára gamli strákur mögulega lent í skothríð."

„Ég man þegar Orri var hjá okkur, við vorum í basli í deildinni fyrir þremur árum síðan þegar ég tók við, vorum í áttunda og níunda sæti. Hann spilaði nokkra leiki og brenndi af nokkrum færum, tapaði boltum og grátkórinn fór að hnýta í hann. Það var erfitt og ég dró lærdóm af þeirri leiðinlegu reynslu."

Orri Steinn lék sína fyrstu leiki með FCK fyrri hluta tímabilsins 2022/23, fór svo á láni til SönderjyskE í B-deildinni og byrjaði að spila reglulega með FCK tímabilið 23/24. Hann var svo seldur til Sociedad fyrir rúmu ári síðan.

„Ef við hefðum unnið fimmtán leiki í röð þá hefði Viktor Bjarki örugglega fengið tækifærið hjá mér fyrr. Nú höfum við aðeins falið hann, hugsað um hann en þegar hann á fullkomna frammistöðu í leik, eins og í kvöld, þá bankar hann fast á hurðina þegar kemur að meiri spiltíma. Það segir sig sjálft."

Næsti leikur FCK verður um helgina í Árósum, gegn toppliðinu AGF.
Athugasemdir
banner
banner
banner