Forest hafnar öllum tilboðum í Anderson sem er á óskalista Man Utd - Tottenham vill fá Samu Aghehowa
   fös 28. nóvember 2025 07:30
Brynjar Ingi Erluson
„Slot hefur viku til að bjarga starfinu“
Arne Slot
Arne Slot
Mynd: EPA
Jamie Carragher er ekki sáttur við stöðuna
Jamie Carragher er ekki sáttur við stöðuna
Mynd: EPA
Sparkspekingurinn og fyrrum Liverpool-maðurinn Jamie Carragher segir að Arne Slot hafi aðeins viku til að bjarga starfi sínu hjá Englandsmeisturunum.

Meistararnir hafa tapað níu af síðustu tólf leikjum sínum og síðustu þremur leikjum með þriggja marka mun.

Síðasta tap Liverpool kom gegn hollenska liðinu PSV á Anfield, en það var í annað sinn í sögu Meistaradeildarinnar sem Liverpool fær fjögur mörk á sig á heimavelli.

Carragher segir að Slot hafi ekki mikinn tíma til að bjarga starfinu, en það séu þrír leikir gegn West Ham, Sunderland og Leeds. Hann segir að hann muni líklega fá sparkið ef liðið tapar meira en tveimur stigum.

„Arne Slot hefur viku til þess að bjarga starfinu. Það er erfitt að trúa því að ég sé að skrifa þessa setningu, en næstu þrír leikir Liverpool eru gegn West Ham, Sunderland og Leeds. Allt undir sjö stigum er þegar óásættanleg staða. Það skiptir ekki máli hversu mikla góðvild stjórinn hefur því Liverpool getur ekki haldið áfram að hraka svona í gæðum sem við höfum orðið vitni að á síðustu þremur mánuðum. Enginn þekkir það betur en ég hversu sár sá raunveruleiki verður hjá þeim sem eru tengdir mínu gamla félagi. Liverpool gerir það ekki að gamni sínu að reka þjálfara, sérstaklega þá sem færa félaginu frábæran árangur,“ sagði Carragher.

Einnig setti hann stórt spurningarmerki við ákvarðanir þeirra sem hafa séð um að versla inn í leikmannahópinn. Hann telur að þar hafi verið gerð stór mistök.

„Frá því tímabilið fór af stað hefur Slot ákveðinn í að taka liðið í átt sem er ekki alveg í takt við sigurhefðir Liverpool. Það var eitthvað rangt við það alveg frá fyrsta degi tímabilsins og nú hefur það orsakað þessa óreiðu sem er í gangi núna

„Það þarf líka að spyrja spurninga um þá sem eru fyrir ofan Slot. Það á ekki að endurskrifa söguna. Þegar Klopp fór frá félaginu setti FSG það í forgang að fá Michael Edwards. Hann fékk síðan Richard Hughes og kom Slot í kjölfarið og enska úrvalsdeildin var unnin. Þetta var ótrúlegt afrek á fyrsta tímabili, en fólk reynir enn að afskrifa það með að segja að þetta hafi verið liðið hans Klopp. Ég hlusta ekki á það. Það getur verið að liðið hefði bætt sig og unnið titilinn undir Klopp, það munum við aldrei fá að vita, en Slot notaði taktík sem Klopp hefði aldrei gert eins og að nota Gravenberch í sexunni og Luis Díaz sem níu. Hann fékk endurnærðan Mohamed Salah sem átti besta tímabil ferilsins, en fólk hafði kallað eftir að hann yrði seldur áður en Slot tók við.“

„Það er samt ótrúlegt að Liverpool hefur síðan þá eytt 450 milljónum punda til þess að skapa ójafnvægi í leikmannahópnum og það án þess að hafa aðra kosti á vængnum og í miðverði. Eftir að hafa selt Díaz þá hefur Liverpool mætt inn í þetta tímabil án þess að hafa samkeppni fyrir Salah og Cody Gakpo. Það er allt í góðu að biðja um að annar þeirra eða báðir verða settir til hliðar, en hver kemur í staðinn? Það var rangt að kaupa tvo dýra framherja. Það er eins og að veðja á tvo hesta í sama hlaupinu. Þú kaupir ekki framherja fyrir 80 milljónir punda og kaupir síðan annan tveimur vikum síðar á 125 milljónir, því ef þeir eru að berjast um sömu stöðuna þá getur aðeins annar þeirra unnið. Það virkar ekki,“
sagði Carragher.
Athugasemdir
banner