Manchester United hefur formlega skráð sig í baráttuna um Robinho Jr, leikmann Santos í Brasilíu, en þetta kemur fram í Diario Do Peixe.
Robinho Jr er 17 ára gamall vængmaður og skírður í höfuðið á föður sínum sem lék með AC Milan, Real Madrid og Manchester City á mögnuðum fótboltaferli sínum.
Sonurinn er talinn eitt mesta efni Brasilíu og hefur þegar spilað 14 leiki með aðalliðinu.
Samkvæmt Diario Do Peixe hefur Man Utd bæst í hóp fjölmargra liða sem hafa áhuga á því að fá Robinho Jr, en ekkert tilboð er þó komið á borðið til þessa.
Inter er einnig að fylgjast með stöðu mála hjá þessum efnilega leikmanni sem varð meistari með U20 ára liði Santos fyrr á þessu ári.
Strákurinn er mjög líkur föður sínum á velli, en kýs að halda sig fyrir utan sviðsljósið og sérstaklega eftir að Robinho eldri var dæmdur í níu ára fangelsi fyrir að nauðga albanskri konu á skemmtistað í Mílanó árið 2013.
Dómur yfir honum var staðfestur árið 2020 og fékk hann leyfi til að afplána dóminn í heimalandi sínu og hóf hana fyrir einu og hálfu ári síðan. Sonurinn er enn í góðu sambandi við föður sinn og heiðrar hann oft í leikjum með að spila í undirtreyju.
Athugasemdir




