Aðsendur pistill - Brynjar Birgisson:
„Stríðsátök hafa fært ólýsanlegar hörmungar yfir mannkynið í gegnum söguna og nú hafa rússnesk yfirvöld, með stuðningi Hvít-rússneskra yfirvalda fært slíkar hörmungar yfir Úkraínu.
Stjórn KSÍ hefur ákveðið að ekkert íslenskt knattspyrnulandslið muni leika við landslið frá Rússlandi meðan á hernaði Rússa stendur,“ sagði í yfirlýsingu KSÍ sem kom út í febrúar 2022. Óhætt er að segja að erfitt hafi verið að finna manneskju á landinu sem setti sig upp á móti til þessari ákvörðun.
Stjórn KSÍ hefur ákveðið að ekkert íslenskt knattspyrnulandslið muni leika við landslið frá Rússlandi meðan á hernaði Rússa stendur,“ sagði í yfirlýsingu KSÍ sem kom út í febrúar 2022. Óhætt er að segja að erfitt hafi verið að finna manneskju á landinu sem setti sig upp á móti til þessari ákvörðun.
Í nóvember í fyrra kom í ljós að landslið Íslands myndi mæta Ísrael í umspili í undankeppni EM karla. Um leið og það varð ljóst hugsaði ég „Vá, þetta setur KSÍ í erfiða stöðu,“ og að ýmsu þyrfti að svara. Vegna starfs míns sem blaðamanns ákvað ég reyna fá svör frá ýmsum aðilum um málið. Ég hafði samband við Vöndu Sigurgeirsdóttur, formann KSÍ, og Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, til að forvitnast hvort að stæði til að keppa við Ísrael í ljósi þeirra stríðsátaka (og mögulegs þjóðarmorðs) sem standa nú yfir á Gaza. Þegar þetta er skrifað er talið að 26 þúsund Palestínubúar hafi verið drepnir á undanförnum mánuðum. Einnig vildi ég vita, hvort ef leikurinn gegn Ísrael færi fram þýddi að Ísland myndi hér eftir leika við Rússland burt séð frá innrás þeirra í Úkraínu.
Einnig sendi ég svipaða fyrirspurn þar sem ég bað um afstöðu ÍTF og Leikmannasamtakanna. Guðni Bergsson og Þorvaldur Örlygsson, sem báðir eru í framboði til formanns KSÍ, voru líka spurðir um sína afstöðu.
Hingað til hefur mér ekkert svar borist um þetta málefni frá þessum aðilum. Reyndar lofaði Guðni Bergsson mér símleiðis að hann myndi svara mér í tölvupósti en hann hefur ekki staðið við það loforð.
Nú fyrir helgi birtist lítil frétt á vef RÚV þar sem Vanda segir að það hafi ekki einu sinni verið rætt innan veggja KSÍ að neita spila við Ísrael. Eftir því sem ég best veit eru þessi ummæli hennar þau einu sem hún eða þeir aðilar og samtök, sem ég hafði samband við, hafa látið falla um leikinn. Einhverjir telja það eflaust ekki vera í verkahring Vöndu og núverandi stjórnar að taka slíka ákvörðun enda verður kosið um nýja stjórn og formann í febrúar. Núverandi stjórn hefur þó ekki látið það stoppa sig í öðrum málum og framlengdi samning Åge Hareide, landsliðsþjálfara Íslands, en fyrri samningur hans átti að renna úr gildi rétt eftir að ný stjórn og formaður tekur við.
Ég nefnilega átta mig ekki á því hvernig það getur verið réttlætanlegt að keppa við Ísrael en ekki Rússland. Er það af því að Palestínubúar eru ekki hvítir? Eru trúarlegar ástæður á bak við þetta? Eru líf þeirra minna virði? Hver er ástæðan?
Ég vil hvetja aðra blaðamenn til að reyna fá svör frá þeim aðilum sem ekki vilja svara mér. Kannski gengur ykkur betur en mér.
Mestu vonbrigðin eru samt Vanda Sigurgeirsdóttir. Ég er búinn að vita af Vöndu síðan ég var sex ára gamall. Þá var Vanda aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöðinni í hverfinu mínu og það mætti segja að hún hafi verið hálfgerð hverfishetja. Allir vissu hver hún var og hvað hún stóð fyrir. Hún stóð með litla manninum og hélt hlífðarskildi yfir þeim sem minna máttu sín. Svo þegar ég varð fullorðinn vann ég sjálfur í félagsmiðstöð í fimm ár og hefur Vanda eflaust haft óbein áhrif á að ég vildi vinna slíka vinnu. Í því starfi sótti ég fyrirlestra hjá Vöndu og hennar fyrirtæki og snérust þeir að mestu leyti um einelti og jákvæð samskipti. Hennar starfsferill hefur að miklu leyti snúist um að hjálpa litla manninum. Þegar hún varð formaður KSÍ varð ég gífurlega glaður, þarna var komin manneskja með gildi sem sárlega hefur vantað í knattspyrnuheiminn.
En þegar á hólminn var komið voru þau gildi, sem Vanda hefur sagst standa fyrir í yfir 30 ár, ekki til staðar. Stuttu eftir að KSÍ gaf út yfirlýsingu um að Ísland myndi ekki spila við Rússland ákvað stjórn knattspyrnusambandsins undir forystu Vöndu að halda til Sádi Arabíu og spila æfingaleik við landslið þeirra og borgaði Sádi Arabía allan kostnað. Þetta er land þar sem sjálfsögð réttindi kvenna og samkynhneigðra eru ekki til. Þar sem fólk er pyntað og aflífað án réttarhalda. Nú segir Vanda að það hafi ekki einu sinni verið rætt að hætta við knattspyrnuleik við þjóð sem hefur drepið 26 þúsund manns á nokkrum mánuðum. Í ferilskrá sem hún birtir á heimasíðu KSÍ er „baráttumanneskja“ fyrsta orðið sem Vanda notar til að lýsa sér. Það er erfitt að koma auga á þá manneskju.
Ég get ekki annað en hugsað um orð Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, þegar ég hugsa um formennskutíð Vöndu: „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Skömmin er þín, Vanda.
Brynjar Birgisson, blaðamaður.
Athugasemdir