Guðrún Arnardóttir sneri aftur í byrjunarliði sænska meistaraliðsins Rosengård sem lagði Växjö að velli, 1-0, í 2. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í dag.
Miðvörðurinn missti af leik liðsins gegn Växjö í bikarnum fyrir tæpum tveimur vikum síðan og spilaði þá aðeins 23 mínútur í síðasta leik, en hún var mætt aftur í liðið í dag.
Norska landsliðskonan Emillie Marie Aanes Woldvik skoraði eina markið í dag og sá til þess að Rosengård væri áfram með fullt hús stiga.
Bryndís Arna Níelsdóttir var í byrjunarliði Växjö sem er án stiga eftir tvo leiki.
Íslendingalið Bröndby tapaði fyrri undanúrslitaleiknum í danska bikarnum, 1-0, gegn Nordsjælland á heimavelli í dag. Ingibjörg Sigurðardóttir spilaði allan leikinn fyrir Bröndby og þá kom Hafrún Rakel Halldórsdóttir inn á sem varamaður í síðari hálfleik.
Seinni leikurinn er spilaður á heimavelli Nordsjælland en liðið er ríkjandi bikarmeistari tvö ár í röð og vann liðið einmitt Bröndby í úrslitum á síðasta ári.
Málfríður Anna Eiríksdóttir byrjaði hjá B93 sem tapaði fyrir Kolding, 3-1, í fallriðli dönsku úrvalsdeildarinnar. B93 er í 4. sæti riðilsins með eitt stig eftir tvo leiki.
Athugasemdir