Enski miðvörðurinn Eric Dier er á leið til Mónakó frá Bayern München, en það er ítalski íþróttafréttamaðurinn Fabrizio Romano sem fullyrðir skiptin með frasanum fræga „Here we go!“  í kvöld.
                
                
                                    Dier, sem er 31 árs gamall, er á öðru tímabili sínu með Bayern en hann kom til félagsins frá Tottenham í byrjun síðasta ár.
Englendingurinn hefur spilað 18 deildarleiki með Bayern á þessu tímabili og reynst Vincent Kompany mikilvægur í titilbaráttunni, en hann verður ekki áfram á næsta tímabili.
Samningur hans rennur út í sumar og hefur Dier ákveðið að halda til Mónakó í frönsku deildinni.
Romano segir að Dier hafi þegar náð samkomulagi við Mónakó og verði formlega kynntur í sumar.
Miðvörðurinn gerir tveggja ára samning með möguleika á að framlengja hann um annað ár.
Mónakó er eitt af stærstu félögum franska boltans og unnið deildina átta sinnum. Það situr nú í 4. sæti með 55 stig þegar þrjár umferðir eru eftir og gerir sér vonir um að komast í Meistaradeild Evrópu á komandi leiktíð.
Athugasemdir
                                                                
                                                        
 
         
         
     
                    
        
         
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        
                        
        
         
                 
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                
                        
            
