Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 30. apríl 2021 11:46
Elvar Geir Magnússon
Guðlaugur Victor ræðir um glímu sína við þunglyndi
Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson hefur þjáðst af þunglyndi og er enn að glíma við sjúkdóminn. Í viðtali við þýska fjölmiðilinn hessenschau ræðir hann um baráttuna við þunglyndi og mikilvægi þess að tekið sé á geðrænum vandamálum.

Hann hefur lengi verið að glíma við þunglyndi og ástandið versnaði eftir að hann varð fyrir áfalli síðasta haust, móðir hans lést þá eftir baráttu við fíkn.

„Móðir mín lést í nóvember. Ég fór í aðgerð vegna meiðsla og vaknaði upp eftir svæfingu, tveimur tímum síðar fékk ég símtalið. Tilfinningalega var þetta eins og að klessa á vegg," segir Guðlaugur Victor.

Sjá einnig:
Guðlaugur Victor minnist móður sinnar

Andlát móður hans kom á tíma þar sem hann þurfti að fara í tvær aðgerðir vegna meiðsla og íslenska landsliðið var nýbúið að missa naumlega af því að komast í lokakeppni EM.

„Allt féll saman. Hef ég þjáðst af þunglyndi. Já. Er ég enn að glíma við það? Já. Ég er ekki hræddur við að tjá mig opinberlega um það," segir Guðlaugur Victor.

Hann segir frá því þegar hann fór heim til Íslands og reyndi að komast yfir sorgina. Hann einangraði sjálfan sig, svaf lítið, borðaði lítið og missti átta kíló. Aðeins ungur sonur hans gat reynst honum stuðningur.

„Æska mín var ekki ákjósanleg. Móðir mín eignaðist mig þegar hún var sautján ára og faðir minn var aldrei til staðar. Síðustu tíu ár var samband mitt við móður mína ekki alltaf það besta vegna áfengis- og eiturlyfjavanda hennar. Hún hafði glímt við þetta síðan ég fæddist."

Guðlaugur Victor segist hafa glímt við þunglyndi síðan hann var sextán ára gamall og um tíma hafi hann leitað í áfengi til að flýja raunveruleikann. Hann hafi á endanum leitað sér aðstoðar sálfræðings og það hafi reynst besta ákvörðun lífs hans.

Guðlaugur Victor er 30 ára gamall og spilar fyrir þýska B-deildarliðið Darmstadt. Hann hefur leikið í atvinnumennsku allan sinn aðalliðsferil.
Athugasemdir
banner
banner
banner