Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, segist hafa tekið ákvörðun um að hætta sem þjálfari liðsins en svo hafi hann ákveðið að hætta við að hætta.
Lestu um leikinn: Fylkir 1 - 5 Valur
Frá þessu sagði hann í samtali við Fótbolta.net eftir tap gegn Val í Pepsi Max-deildinni.
„Við þjálfarar ákváðum að hætta en svo sneri ég við og hætti ekki. Við ætluðum að fá þessa nýju rödd og töldum að það þyrfti. Ég er búinn að vera með þetta í fjögur ár og ég taldi þurfa eitthvað nýtt," segir Kjartan.
„Stjórn Fylkis og aðrir góðir voru þeirrar skoðunar að það væri gott að halda áfram. Ég tekst bara á við það. Fylkir er númer eitt og að liðinu gangi vel. Ég tók það á mig að það gengi ekki vel. Ég á stóran þátt í því. Stundum þarf bara nýja rödd þó það sé verið að gera ágætis hluti. Ég er kominn með gott fólk í kringum sem kemur með nýja rödd."
Fylkir er í fallsæti en það er áfram bjartsýni um að liðið haldi sér uppi. „Við höfum verið að sýna það að við getum tekið þessa leiki. Við erum með flottar stelpur og flott lið. Við þurfum að finna markið og standa þessar sóknir sem við höfum verið að fá á okkur ódýr mörk í... það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn."
Hægt er að sjá allt viðtalið hér að ofan. Þar ræðir Kjartan um leikinn gegn Val í kvöld.
Athugasemdir