Aníta Lind Daníelsdóttir, leikmaður Keflavíkur, var hneyksluð yfir frammistöðu síns liðs í síðari hálfleik eftir 4-2 tap gegn Þrótti í Laugardalnum í dag.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 4 - 2 Keflavík
„Ég á ekki orð yfir þessum seinni hálfleik. Það er eitthvað sem við þurfum að laga og líka að spila boltanum. Þegar það er ekki að virka að senda langa bolta, þá þurfum við að finna eitthvað nýtt. Við reyndum og reyndum í dag og það var ekki að virka,“ sagði Aníta Lind í viðtali við Fotbolti.net eftir leik.
Vítaspyrnan sem Aníta skoraði úr var svolítið umdeild en Aníta féll sjálf niður í teignum eftir klafs í kjölfar hornspyrnu Keflavíkur. Erfitt var að sjá nákvæmlega hvað gerðist en Aníta var ekki í nokkrum vafa.
„Þetta var víti. Ég var á hreyfingu endalaust og það var búið að vera að halda í mig í hinum tveimur hornspyrnunum á undan. Ég ætlaði að ná mér lausri en hún sparkar bara undan mér löppunum. Fyrir mér var þetta alltaf víti,“ svaraði Aníta ákveðinn.
Keflvíkingar sitja áfram fastar við botninn eftir tapið í dag. Aníta skorar liðsfélaga sína í að nota næstu 11 daga til að skoða leik liðsins betur, ef ekki á illa að fara.
„Við þurfum að vera betri í að halda bolta. Vera aðeins ákveðnari og klára það út allan leikinn. Það er aðeins að síga af okkur í seinni hálfleikjunum, sem er ekki nógu gott,“ sagði Aníta Lind Daníelsdóttir, leikmaður Keflavíkur, að endingu en viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.