
Lestu um leikinn: Selfoss 3 - 2 Þór
Þór fór í heimsókn á Selfoss í dag á JÁVERK-völlinn í 20. umferð Lengjudeildar karla.
Þór hefur verið á mjög góðu skriði að undanförnu og var með fimm sigra í röð fyrir leikinn í dag, en lenti í basli á Selfossi og tapaði að lokum 3-2.
„Svekktur með daginn í dag bara frá A til Ö, það er svona sem stendur uppúr," sagði Sigurður Höskuldsson þjálfari Þórs svekktur að leikslokum.
Þórsarar byrjuðu leikinn vel en áttu erfitt uppdráttar í seinni hálfleik.
„Við verjumst illa gegn því sem þeir kasta á okkur og byrjum seinni hálfleikinn með alltof lágt tempó. Við erum steinsofandi þegar við komum út í seinni og gefum þeim gjörsamlega frumkvæðið í leiknum. Við vitum að þeir eru að berjast fyrir lífi sínu og eru búnir að eiga flottar frammistöður. Þeir eru búnir að leggja sig fram og fengu innspítingu í Jóni Daða sem hefur fleytt einhverjum krafti í þá. Við leyfðum þeim að nýta þann kraft og keyra yfir okkur hér í byrjun seinni hálfleiks sem er hrikalega svekkjandi og ekki það sem við ætluðum okkur."
Einar Freyr Halldórsson er að fara í U19 ára verkefni og verður þar af leiðandi ekki með Þór gegn fjölni þann 6. september.
„Það var ekki í boði að vera að færa einn leik eitthvað til, við erum með nógu stóran hóp til að díla við þetta."
Einhver umræða hefur verið um hvort það ætti ekki að fresta eða færa leiki fyrir lið sem eru með leikmenn sem eru að fara í landsliðsverkefni.
„Mér hefur fundist eins og KSÍ hefði kannski átt að breyta mótinu í kringum þetta og færa alla leikina, ekki setja þetta í hendurnar á liðunum. En nei, nei. Ég er ekkert ósáttur við það."