„Ég er vonsvikinn með byrjunina á leiknum. Valur kom tilbúinn í leikinn, annað en við“ sagði Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, eftir 2-1 tap gegn Val í toppslag Bestu deildarinnar í kvöld.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 1 - 2 Valur
Olla byrjaði á bekknum í dag eftir að hafa byrjað alla leiki tímabilsins hingað til. Það var þó ekki að ástæðulausu.
„Hún meiddist aðeins í bikarleiknum og gat lítið æft í gær. Sjúkraþjálfarinn gaf grænt ljós á 30 mínútur og hún fékk þær.“
Katla Tryggvadóttir fór meidd út af velli í Mjólkurbikarnum í síðustu viku. Nik sagði þó að það væri stutt í hana og að meiðslin væru ekki alvarleg.
Nú á dögunum dróst Þróttur gegn Breiðabliki í 8. liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Aðspurður um möguleika Þróttar í þeim leik hafði hann þetta að segja: „Ef við spilum eins og við byrjuðum leikinn í dag þá verður þetta mjög erfiður leikur. En ef við spilum eins og restina af leiknum þá eigum við möguleika.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.