Stjarnan hefur náð samkomulagi við sænska félagið Mjällby um kaup á Guðmundi Baldvin Nökkvasyni en þetta kemur fram í tilkynningu Stjörnunnar í dag.
Guðmundur er 20 ára gamall miðjumaður sem gekk í raðir Mjällby á síðasta ári.
Það gekk erfiðlega hjá honum að festa sæti sitt í byrjunarliði sænska liðsins og hafði hann lítið komið við sögu á undirbúningstímabili síðasta tímabils.
Hann ákvað að ganga í raðir Stjörnunnar á láni frá Mjällby í mars og spilaði allt tímabilið hér heima er Stjarnan hafnaði í 4. sæti Bestu deildarinnar.
Stjarnan hefur nú greint frá því að Guðmundur verður áfram í Garðabæ en félagið hefur náð samkomulagi um kaupverð.
„Það var mikil reynsla fyrir mig að stíga það skref að fara út á sínum tíma en ég tel mikilvægt fyrir mína þróun sem leikmaður að spila sem mest og í umhverfi sem ég veit að kallar fram það besta í mér enda er sú umgjörð og aðbúnaður sem er búið að skapa í kringum Stjörnuna þannig að það gefur öðrum deildum ekkert eftir. Ég er hrikalega ánægður að vera kominn heim, -Stjarnan er mitt félag og ég ætla að leggja mig fram til að skila til baka til félagsins og þeirra sem þar starfa og hlakka mikið til þess að byrja á fullu með strákunum. Þetta verður geggjað season hjá okkur og Garðbæingar geta látið sig hlakka til næsta tímabils,“ sagði Guðmundur við undirskrift.
Athugasemdir