
,,Ég hef mjög mikla trú á að Kalli geri rétta hluti núna, hann var þriðji þjálfari í fyrra og er aðalþjálfari núna. Hann ætlar sér mikið með okkur og hefur metnað fyrir þessu og mér líst bara vel á," sagði Katrín Ásbjörnsdóttir sem í gær framlengdi við KR en Björgvin Karl Gunnarsson hefur tekið við þjálfun liðsins. Katrín er einn efnilegasti leikmaður Íslands og flest lið í deidinni sýndu henni áhuga.
,,Þau voru svolítið mörg, öll í deildinni nema þrjú, og það var erfitt að taka ákvörðun um þetta en ég er sátt við að hafa samið við KR," sagði Katrín sem gerði eins árs samning við félagið.
,,Það hefur verið rosaleg pressa undanfarna daga og þegar prófin eru að fara að byrja get ég farið að einbeita mér að þeim og hætt þessu rugli, að fá þessi símtöl sem bara trufla mig."
,,Ég hef verið KR-ingur síðan ég fæddist og pabbi líka og allir í fjölskyldunni. Það hefði verið erfitt að fara þegar maður er uppalinn KR-ingur."
Katrín hefur sjálf leikið með yngri landsliðum Íslands og hefur æft með æfingahópi A-landsliðsins. Hún hefur mikinn metnað og sagði okkur frá því að erlent lið sé þegar búið að hafa samband við hana.
,,Auðvitað stefni ég á landsliðssæti og að fara út og spila þar og ná góðum árangri. Ég er mjög metnaðarfull. Það er lið að utan búið að senda mér póst en ég get ekki farið strax þar sem ég er ennþá í skóla. Markmiðið er að klára menntaskóla og sjá svo til hvort ég fái einhver tilboð að utan og vinna svo út úr því."
Nánar er rætt við Katrínu í sjónvarpinu hér að ofan.