„Við vorum ekki með grunn atriðin á hreinu," sagði Kjartan Kári Halldórsson leikmaður FH eftir 1-1 jafntefli við ÍBV í kvöld.
Lestu um leikinn: FH 1 - 1 ÍBV
„Við fáum klaufalegt mark á okkur á 88. mínútu, svo lágum við á þeim. Það var gott allavega að fá jafntefli, úr því sem komið var þannig það er bara fínt að fá eitt stig allavega," sagði Kjartan.
Kjartan skoraði jöfnunarmarkið úr aukaspyrnu á lokasekúndum leiksins. Hann hefur sýnt það í sumar að hann er góður í aukaspyrnum.
„Maður er búinn að æfa sig lengi á æfingavellinum að taka aukaspyrnur. Það er búið að skila nokkrum mörkum í sumar, vonandi heldur það bara áfram," sagði Kjartan.
FH fer upp í 5. sætið með þessu stigi, en það eru aðeins þrjú stig niður í 10. sætið. Pakkinn er því gríðarlega þéttur og baráttan um að vera í efri sex fyrir skiptingu orðin virkilega spennandi.
„Það er bara gamla góða klisjan að hugsa um næsta leik, ekki hugsa um tvo leiki í einu. Við þurfum bara að gíra okkur almennilega fyrir næsta leik og keyra á það," sagði Kjartan.