„Við vorum bara skelfilegir. Sérstaklega í fyrri hálfleik. Það virkaði ekkert sem við vorum að gera, varnarleikurinn var ömurlegur og það var engin sannfæring í því sem við vorum að gera. Þegar við vorum að fara upp í pressu, þá vorum við galopnir og áttum ekkert skilið,'' sagði hundfúll Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, eftir 2-0 tap gegn KA í Bestu-deild karla í kvöld. Með tapinu fara KA upp fyrir Fram og þrautarganga þeirra bláklæddu heldur áfram.
Lestu um leikinn: KA 2 - 0 Fram
Rúnar hrósaði KA liðinu um leið og hann kvartaði yfir skort á sannfæringu og andleysi sinna manna.
„Þeir yfirmönnuðu ákveðin svæði þegar við fórum upp í pressuna og voru búnir að vinna heimavinnuna sína vel. En þegar að það er enginn sannfæringarkraftur í pressunni okkar og menn eru að fara með hálfum hug í þetta að þá náttúrulega vinnurður aldrei neina bolta. Við gátum gert það í síðari hálfleik, það var aðeins meiri kraftur og vinnsla í okkur. Við vorum meira með boltann og ógnuðum þeim miklu, miklu meira en við gerðum í fyrri hálfleiknum - en KA menn voru sáttir við 2-0, en það var allavega aðeins meiri sannfæring í pressunni þá.''
Rúnar gerir sér grein fyrir því að það er í sínum verkahring og þeirra sem að standa að liði Fram að rýna í hvað úrskeiðis hefur farið og hvernig er hægt að koma liðinu aftur á beinu brautina.
„Við erum búnir að vera í erfiðu tímabili núna nokkra leiki þar sem að við höfum ekki fengið stig. Á sama tíma þá verð ég að segja að síðustu þrír leikir sem að við höfum spilað - á móti Stjörnunni, Vestra og KR hafa allt verið mjög góðir leikir af okkar hálfu. Við höfum bara ekki nýtt færin okkar og við höfum verið að fá á okkur mörk úr föstum leikatriðum, bæði á móti KR og Stjörnunni. Við erum sjálfir að klúðra dauðafærum og þetta þarf aðeins að snúast og við þurfum að gera það hratt, því að það er lítið eftir.''
Í svona þéttum pakka og jafnri deild - hvert horfa menn á töfluna? Upp eða niður?
„Menn horfa helst ekkert á töfluna. Horfa bara á næsta leik og reyna að ná einhverju útúr honum. Við erum í fallbaráttu, eins og staðan er núna og menn verða að gera sér grein fyrir því. Á sama tíma ef þú vinnur einn leik þá gætirðu verið aðeins kominn frá fallbaráttunni, en þú værir sennilega ennþá í henni. En eins og staðan er núna þá erum við bara að berjast í neðri hlutanum,'' sagði Rúnar Kristinsson.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.