,,Maður þekkir alla í kringum þetta félag, það er virkilega góð stemning búin að myndast í kringum ÍBV liðið og það er gaman að taka þátt í því," sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem gekk í dag í raðir ÍBV.
Þessi 28 ára gamli framherji yfirgaf Esbjerg í síðustu viku og þrátt fyrir að eiga möguleika á að vera áfram úti í atvinnumennsku þá ákvað hann að koma heim.
,,Þeir voru nokkrir möguleikarnir en á þessum tímapunkti fannst mér þeir ekki vera nógu spennandi. Aðalástæðan fyrir því að maður er kominn heim er að konan er ólétt, hún á að eiga í apríl og við þurfum að eiga smá samastað fyrir það og þá er það ÍBV."
Gunnar Heiðar gerði fjögurra ára samning við ÍBV en hann útilokar ekki að fara aftur út.
,,Ég vona að ég geti spilað þessi fjögur ár í ÍBV en ég loka ekki neinum dyrum í að fara aftur út. Það eru þónokkur lið sem vilja sjá mig spila. Maður hefur ekki fengið það síðustu tvö ár en nú fær maður að spila og vonandi geta þessi blessuðu lið komið til Íslands og kíkt á mig."
Gunnar Heiðar var markakóngur í Svíþjóð árið 2005 en síðan þá hefur gengi hans í atvinnumennskunni verið upp og ofan.
,,Þetta hefur ekki alveg gengið eins og maður vildi, maður er búinn að fara lengst upp og lengst niður líka. Maður er búinn að kynnast ýmsu í þessu og vonandi getur maður miðlað því til yngri leikmanna ÍBV."
,,Þetta hefur styrkt mig sem persónu og eins og einhver sagði, ef það drepur þig ekki þá styrkir það þig," sagði Gunnar Heiðar sem stefnir á að raða inn mörkum með ÍBV næsta sumar.
,,Ég hef alltaf verið með skotskóna en ég hef bara ekki fengið að spila í þeim."
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.