Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 20. júlí 2011 22:58
Alexander Freyr Tamimi
Umfjöllun: Blikar yfirgáfu Meistaradeildina með sæmd
Breiðalik 2 - 0 Rosenborg
1-0 Dylan McAllister ('28)
2-0 Kristinn Steindórsson ('82)

Íslandsmeistarar Breiðabliks sýndu í kvöld af hverju þeir hömpuðu þeim titli í fyrra með glæsilegri spilamennsku gegn norska stórliðinu Rosenborg. Blikar unnu verðskuldaðan 2-0 sigur en duttu samt sem áður úr keppni eftir 5-0 tap í Þrándheimi.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að Kópavogsdrengirnir ætluðu að gefa allt sitt í leikinn þrátt fyrir að möguleikar á því að komast áfram væru vægast sagt litlir. Þeir voru staðráðnir í því að sýna að þeir væru betri heldur en spilamennska þeirra í Þrándheimi gaf til kynna og komu þeir af miklum krafti inn í viðureignina á Kópavogsvelli.

Smám saman unnu gestirnir sig aðeins inn í leikinn en það var þó ljóst að þeir voru ekki að gefa sig hundrað prósent í þessa viðureign, enda komnir með níu tær í næstu umferð. Það verður þó ekki tekið af Blikunum að spilamennska þeirra var frábær og líkast til með því betra sem sést hefur til þeirra í sumar.

Þeir uppskáru því sem þeir sáðu á 28. mínútu þegar þeir náðu forskotinu, en þar var á ferð Dylan McAllister með flottu skoti. Kristinn Jónsson átti þá flottan sprett og gaf góðan bolta inn á McAllister sem kláraði af stakri snilld framhjá Daniel Örlund úr þröngu færi.

Blikar hefðu getað hleypt smá spennu inn í einvígið undir lok fyrri hálfleiksins en voru óheppnir. Kristinn Jónsson átti flotta rispu inni í teig, náði fínu skoti en Örlund varði. Boltinn fór hins vegar ekki lengra en til McAllister sem skaut yfir markið. Staðan var því enn 1-0 fyrir Blika þegar gengið var til búningsklefanna í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var satt best að segja ekki upp á marga fiska. Blikar voru með völdin og Rosenborg í sjálfu sér lítil mótspyrna. Illa gekk þó að skapa færi og má kenna því um að feilsendingarnar voru of margar hjá heimamönnum og var það oft sem það vantaði bara eina góða lokasendingu í sóknina til að skapa eitthvað.

Þeim tókst þó að bæta við marki og tryggja sér sigurinn, en þar var á ferð Kristinn Steindórsson eftir góða sendingu frá McAllister. Kristinn kom sér í gott skotfæri inni í teignum og skaut í stöngina og inn við mikinn fögnuð stuðningsmanna Blika.

Fátt gerðist það sem eftir lifði leiks en Blikar gátu gengið af velli með höfuð hátt undir dynjandi lófatak stuðningsmannanna sem voru mjög sáttir með sigurinn. Vissulega tapaðist rimman 5-2 en lærisveinar Ólafs Kristjánssonar sýndu mikinn karakter með að koma inn í kvöld og gefa allt sitt og yfirgefa þar með Meistaradeildina með sæmd.

Breiðablik: Ingvar Þór Kale (M), Finnur Margeirsson, Kári Ársælsson (F), Kristinn Steindórsson, Rafn Andri Haraldsson, Guðmundur Kristjánsson, Jökull Elísabetarson, Kristinn Jónsson, Arnór Aðalsteinsson, Tómas Garðarsson, Dylan McAllister.

Rosenborg: Daniel Örlund (M), Mikael Lusting, Mikael Dorsin (F), Jim Larsen, Trond Olsen, Fredrik Winsnes, Per Ciljan Skjelbred, Simen Wangberg, Markus Henriksen, Mushaga Bakenga (46. Morten Moldskred), Rade Prica.

Maður leiksins: Kristinn Jónsson (Breiðablik)

Dómari: Christof Virant frá Belgíu - Góður

Áhorfendur og aðstæður: 747 manns í bongóblíðu




Leik lokið: Leik Breiðabliks og Rosenborg er lokið með glæsilegum 2-0 sigri Blika. Þeir detta út 5-2 samtals en sýndu mikinn karakter í kvöld og uppskáru verðskuldaðan sigur.

90. mín: Viktor Unnar Illugason kemur inn fyrir Kristin Steindórsson í blárestina.

90. mín: Við erum komin í uppbótartíma sem er 2 mínútur.

85. mín: Morten Moldskred kemst í dauðafæri eftir fína lága fyrirgjöf frá Trond Olsen en Ingvar Kale ver vel frá honum.

82. mín: MAAAAAAAAAAARK!!! KRISTINN STEINDÓRSSON SKORAR ANNAÐ MARK BLIKA!!!! DYLAN MCALLISTER LAGÐI BOLTANN ÚT Á KRISTINN SEM KOM SÉR Í FRÁBÆRT SKOTFÆRI Í TEIGNUM OG SKORAÐI Í STÖNGINA OG INN!! 2-0 FYRIR BLIKUM!!

80. mín: Blikar eiga tvær fínar sóknir. Í þeirri seinni keyra þeir upp og Guðmundur Kristjánsson fer með boltann og kemst í gott skotfæri, en skot hans var afleitt og fór framhjá.

74. mín: Blikar gera skiptingu. Rafn Andri Haraldsson fer af velli og inn í hans stað kemur Andri Rafn Yeoman.

72. mín: Rosenborg gerir sína síðustu skiptingu. Inn á kemur Jonas Svensson og af velli fór Per Ciljan Skjellberg.

69. mín: Blikar eiga fína sókn og Arnar Már er hársbreidd frá því að ná góðu skoti í teignum rétt eftir að hafa komið inn á, en varnarmaður Rosenborgar bjargar og boltinn endar í hrömmum Örlund. Það er ekki að ástæðulausu sem Arnar Már hefur stundum verið kallaður super-sub.

68. mín: Blikar gera sína fyrstu skiptingu, Arnar Már Björgvinsson kemur inn fyrir Tómas Leif Garðarsson, sem hefur bara verið mjög fínn í leiknum.

63. mín: Rosenborg gerir skiptingu. Argentínumaðurinn Alejandro Lago kemur inn fyrir Jim Larsen.

Gylfi Steinn á Twitter
Situr fastur a flugvelli á meðan þeir grænklæddu spila í Meistatadeildinni í fyrsta sinn á borgarleikvangi Kóp City! Fjárinn! #fotbolti

60. mín: Guðmundur Kristjánsson fær gula spjaldið fyrir groddaralega tæklingu á miðjum vellinum.

54. mín: Síðustu sendingarnar eru svolítið mikið að klikka hjá Blikunum. Misheppnuð sending frá McCallister skilaði Rosenborg rétt í þessu skyndisókn sem endaði með því að Trond Olsen komst í fínt skotfæri. Skot Olsen fór þó beint á Ingvar.

50. mín: Lítið í gangi fyrstu mínútur seinni hálfleiks. Rosenborg hafa byrjað betur og rétt í þessu átti Morten Moldskred varamaður ágætis skalla sem fór framhjá markinu.

46. mín: Þá hefst seinni hálfleikurinn, gestirnir byrja með boltann. Fyrst að Rosenborg gat skorað fjögur síðast í seinni hálfleik, geta Blikar það þá ekki núna?

Ein breyting var gerð á liði gestanna. Mushaga Bakenga fór af velli fyrir Morten Moldskred.

Kristján Óli Sigurðsson á Twitter
Hvar er bliki nr 1 a cl leiknum??? @EgillGillz #fotbolti

Hálfleikur: Flautað hefur verið til leikhlés í hálfleik og er staðan 1-0 fyrir Breiðablik. Með smá heppni hefði forystan getað verið stærri en þetta er búið að vera flottur hálfleikur hjá Blikum. Gestirnir frá Noregi kannski ekki að gefa 100 prósent í þetta en samt sem áður, flott hjá Blikum.

45. mín: Ansvítans!! Þarna hefðu Blikar getað bætt við öðru marki rétt fyrir leikhlé!! Kristinn Jónsson átti flotta rispu inni í teig sem endaði með fínu skoti. Örlund varði en boltinn barst út í teiginn en skot Dylan McAllister var ekki gott og fór framhjá. Flott hjá Blikum en hefði verið frábært að bæta við fyrir hlé.

36. mín: Blikarnir hafa aftur náð tökunum eftir að hafa átt slakan kafla. Þeir komust í ákjósanlega sókn fyrir skömmu en voru ekki alveg nógu ákveðnir fram á við. Annars fínn fyrri hálfleikur það sem af er.

28. mín: MAAAAAAAAAAAAARK!!! DYLAN MCALLISTER KEMUR BLIKUM YFIR MEÐ FLOTTU SKOTI!! KRISTINN JÓNSSON GAF STUNGUSENDINGU INN Á DYLAN SEM VAR KOMINN EINN Í GEGN, EN Í ÞRÖNGU FÆRI, OG HANN AFGREIDDI BOLTANN GLÆSILEGA FRAMHJÁ DANIEL ÖRLUND Í MARKINU!!

27. mín: Bakenga kemst aftur í fínt færi þegar hann kemst einn í gegn en hann drollar endalaust og klúðrar þessu.

23. mín: Gestirnir hafa aðeins verið að gefa í sóknina undanfarið og fékk Mushaga Bakenga rétt í þessu skot úr mjög fínu færi inni í teignum en það fór hátt yfir markið.

19. mín: Finnur Orri Margeirsson fær að líta fyrsta gula spjaldið fyrir að stöðva sókn gestanna á nokkuð harðsvífaðan hátt.

18. mín: Það er svona svolítið eins og gestirnir séu varla að nenna þessu. Blikar hirða boltann auðveldlega af þeim og pressa alveg nokkuð stíft. Nú þurfa þeir bara að pota inn einu marki.

16. mín: Blikar með fína pressu að marki Rosenborgar sem endar á því að Kristinn Steindórsson á skot úr þröngu færi sem Örlund ver nokkuð örugglega. Fín frammistaða hjá Blikum hingað til.

10. mín: Tíu mínútur liðnar og leikurinn nokkuð jafn, Blikar samt betri ef eitthvað er. Dómarinn frá Belgíu hefur verið mjög duglegur á flautunni það sem af er leik.

7. mín: Blikarnir mega eiga það að þeir eru að byrja þennan leik vel. Þeir eru að spila ágætlega og gæti verið að Rosenborg sé að reyna að sleppa hérna með sem minnsta áreynslu. Það myndi vissulega henta Blikum vel.

5. mín: Þessi tvö lið sem mætast í kvöld eiga það sameiginlegt að hafa verið meistarar á síðasta tímabili og að hafa svo engan veginn náð að fylgja því eftir. Blikar eru 6. sætinu hér heima en Rosenborg er í 9. sæti af 16 í Noregi.

3. mín: Blikarnir byrja ágætlega. Kristinn Steindórsson fékk boltann í fínni sókn og skapaði sér ágætt skotfæri en varnarmaður gestanna komst fyrir boltann.

1. mín: Leikur Breiðabliks og Rosenborgar er hafinn og eru það Blikar sem hefja leik.

18.43: Liðin ganga inn á völlinn og leikurinn fer senn að hefjast. Dómari kvöldsins er frá Belgíu og heitir Christof Virant.

18.37: Það fer að styttast í leikinn, sem byrjar 18:45. Blikar þyrftu helst að troða inn einu til tveimur mörkum strax fyrsta korterið til að við getum svona gert okkur einhverjar smá vonir. Miðað við fyrri leikinn er það samt pínu hæpið.

18.30: Kæru lesendur, verið velkomnir í beina textalýsingu frá leik Breiðabliks og Rosenborg í undankeppni Meistaradeildarinnar. Það liggur við að það sé tilgangslaust að þessi leikur fari fram, þar sem sá fyrri fór 5-0 fyrir Rosenborg í Þrándheimi, en við vonum auðvitað að Blikar geti bara bjargað andlitinu í kvöld.

Breiðablik: Ingvar Þór Kale (M), Finnur Margeirsson, Kári Ársælsson (F), Kristinn Steindórsson, Rafn Andri Haraldsson, Guðmundur Kristjánsson, Jökull Elísabetarson, Kristinn Jónsson, Arnór Aðalsteinsson, Tómas Garðarsson, Dylan McAllister.

Rosenborg: Daniel Örlund (M), Mikael Lusting, Mikael Dorsin (F), Jim Larsen, Trond Olsen, Fredrik Winsnes, Per Ciljan Skjelbred, Simen Wangberg, Markus Henriksen, Mushaga Bakenga (46. Morten Moldskred), Rade Prica.
banner
banner
banner
banner