| þri 20.jan 2026 17:42 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Damir: Fólk í klúbbnum sem ég ber núll virðingu fyrir
Damir Muminovic yfirgaf Breiðablik í síðasta mánuði eftir tólf tímabil hjá félaginu. Damir hafði spilað samfleytt með Breiðabliki frá árinu 2014 þegar hann samdi við DPMM í Brúnei haustið 2024 og lék hann fyrri hluta síðasta árs í úrvalsdeildinni í Singapúr.
Hann sneri aftur í Blika síðasta sumar en fékk ekki endurnýjun á samningi og þurfti því að leita annað. Hann samdi í nóvember við Grindavík og verður með liðinu á komandi tímabili. Það mátti heyra á Damir í viðtölunum í kringum lokaleikinn með Blikum, gegn Strasbourg í Frakklandi, að hann var ekki sáttur við niðurstöðuna.
Fótbolti.net ræddi viðskilnaðinn við Breiðablik við Damir og byrjað var á endurkomunni í Breiðablik síðasta sumar.
'Ég held að Breiðablik sé sennilega með lið sem gæti keppt um sætin fyrir neðan toppsætið í Singapúr'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það var mjög erfitt að mæta á æfingu þegar ég vissi að ég yrði ekki áfram eftir tímabilið og vissi að ég myndi ekki spila meira.'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég talaði ekki við neitt annað félag hér heima, planið var alltaf að fara í Breiðablik og einhvern veginn leitaði hjartað alltaf þangað'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég mun alltaf halda með Breiðabliki og liðfélögunum sem ég er búinn að spila heillengi með'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta horfði ekki vel við mér, ég var brjálaður, og ég var ekki sá eini sem var reiður og svekktur.'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Einhvern veginn náði ég að skipta um gír þegar kom að leikjunum og setja hausinn og liðsfélagana í fyrsta sætið'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það var ekki nýja þjálfaranum að kenna að Dóri hefði verið látinn fara'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það var ekkert vandamál að ég fengi ekki nýjan samning, en það hefði verið fínt að fá smá virðingu eftir 12-13 ár'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hausinn var eins og ég segi kominn í smá 'fokk-it mode'. En mér leið virkilega vel að vinna leikinn og pening í kassann fyrir félagið'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég átta mig á því að Grindavík er ekki á sama stað og Breiðablik. Það er undir mér komið að koma inn í félagið og skrifa nýja sögu með þeim'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kom í Breiðablik fyrir tímabilið 2014 og fer þaðan sem næstleikjahæsti leikmaður í sögu félagsins.
Mynd/Ingólfur Hannes Leósson
„Það var aldrei spurning um neitt annað en að fara aftur í Breiðablik þegar ég kom heim. Planið hjá mér og Dóra (Halldóri Árnasyni, fyrrum þjálfara Breiðabliks) var alltaf að ég kæmi til baka eftir sex mánaða dvöl úti. Eftir tímabilið úti fékk ég samningstilboð frá DPMM um að vera áfram í ár í viðbót, en það hentaði ekki fjölskyldulega séð. Ég tók þá ákvörðun að koma heim og fara aftur í mitt gamla félag. Ég talaði ekki við neitt annað félag hér heima, planið var alltaf að fara í Breiðablik og einhvern veginn leitaði hjartað alltaf þangað," segir Damir.
Tímabilinu i Singapúr lauk í lok maí en Damir máti ekki spila með Blikum fyrr en sumarglugginn opnaði um miðjan júlí.
„Ég kom í lok maí, Dóri vildi að ég færi í mánaðar frí, en mig minnir að ég hafi tekið um tveggja vikna sumarfrí. Svo byrjaði ég að æfa og ég get alveg viðurkennt að það tók alveg smá tíma að ná tempóinu, hraðanum og gæðunum á æfingunum. Þetta var ekki nema hálft ár sem ég var í burtu, en það er öðruvísi fótbolti spilaður út."
Myndi Breiðablik vinna úrvalsdeildina í Singapúr?
„Ég ætla ekki segja að Breiðablik myndi vinna deildina. Topplið í Asíu eru með leikmenn sem hafa verið í Bundesliga og Eredivisie og eru að borga leikmönnum 7-10 milljónir dollara í laun á ári. Ég held að Breiðablik sé sennilega með lið sem gæti keppt um sætin fyrir neðan toppsætið í Singapúr."
„Það var alltaf verið að pota í okkur hvort það þyrfti ekki að skipta um þjálfara"
Small ekki saman
Damir gerði hálfs árs samning við Breiðablik eftir komuna frá Brúnei.
„Samtalið var þannig að við myndum svo setjast niður með haustinu og fara þá yfir stöðuna."
Þegar Damir byrjaði að spila var Breiðablik við toppinn á Bestu deildinni og Blikar komnir á fullt í Evrópu. Breiðablik vann Vestra 19. júlí en næsti sigurleikur kom ekki fyrr en 5 október. Hvernig leið þér með þetta?
„Mér leið ekkert auðvitað ekkert vel þegar okkur gekk illa. Mér fannst við einhvern veginn samt alltaf vera að narta í hælana á liðunum fyrir ofan okkur. Þetta small ekkert saman hjá okkur, það gekk ekki að vinna leiki. Ég veit ekki hvað það var, æfingarnar voru frábærar fannst mér en þegar kom í leiki þá bara vorum við einu skrefi eftir á eða vantaði eitthvað upp á hugarfarið hjá okkur leikmönnum."
Brjálaður þegar Dóri var rekinn
Tveimur dögum eftir tap gegn Víkingi var tilkynnt um þjálfarabreytingu. Halldór Árnason var rekinn og Ólafur Ingi Skúlason tók við. Breiðablik var á þessum tímapunkti enn í séns á því að ná Evrópusæti.
„Þetta horfði ekki vel við mér, ég var brjálaður, og ég var ekki sá eini sem var reiður og svekktur. Við vorum saman í þessu, við og þjálfararnir, með ákveðið plan. Leikmannahópurinn var auðvitað ekki ánægður með þetta. Dóri fékk nýjan samning stuttu áður en hann var látinn fara. Þetta var erfiður dagur fyrir mig."
Fáránleg hegðun hjá aðila í stjórn
Fengu leikmenn einhverjar útskýringu af hverju það var tekin ákvörðun um að gera þjálfarabreytingu?
„Það er auðvelt að benda alltaf á þjálfarann þegar gengur illa, en auðvitað eigum við leikmenn líka sökina á slæmu gengi liðsins. Við vorum boðaðir á fund, vissum alveg hvað var að fara gerast. Ég vissi í raun nokkrum dögum áður að þetta væri að fara gerast. Ég var á lokahófi á meistaraflokks kvenna, minnir að það hafi verið sama kvöld og Víkingsleikurinn, og þar var ónefndur aðili úr stjórninni að pota í nokkra leikmenn meistaraflokks karla og segja hvort það þyrfti ekki að skipta um þjálfara. Okkur fannst það svolítið skrítið að hann skyldi tala um þetta fyrir framan fullt af fólki sem kæmi þetta ekkert við. Við vissum því hvað væri að fara gerast þegar umræðan fór í gang í fjölmiðlum. Á fundinum var búið að leka út að Dóri yrði rekinn. Menn voru ekki ánægðir þegar þeir komu inn í klefa."
„Það var gjörsamlega fáránlegt að vera tala um þetta, það var alltaf verið að pota í okkur hvort það þyrfti ekki að skipta um þjálfara, hvort þetta væri ekki þjálfaranum að kenna. Konan mín var þarna líka, henni fannst þetta rosaskrítið að aðili úr stjórninni væri að ræða þetta á þessum tíma og þessu kvöldi svo fólk gæti heyrt."
Ekki nýja þjálfaranum kenna
Ólafur Ingi var ráðinn á mánudegi og þá var framundan leikur gegn KuPS í Sambandsdeildinni, leikur sem Breiðablik átti mjög góðan möguleika á að vinna. Hvernig var andinn í hópnum?
„Við leikmenn töluðum saman um það að þetta væri búið og gert við þyrftum að ýta þessu til hliðar. Það var nóg eftir af tímabilinu; Evrópuleikir og úrslitaleikur um Evrópusæti. Við þurftum að ýta þessu til hliðar og bjóða nýjan þjálfara velkominn. Það var ekki nýja þjálfaranum að kenna að Dóri hefði verið látinn fara."
Fannst þetta vanvirðing
Á þessum tímapunkti, varstu að búast við því að viðræður um þitt framhald væru farnar af stað?
„Já, ég var búinn að ýta eftir því að setjast niður með fólki úr Breiðabliki og fá svör um framtíðina. Ég fékk alltaf þau svör að við myndum klárlega setjast niður og reyna finna út úr þessu og reyna klára þetta. Eftir að Dóri var rekinn fékk ég þau skilaboð að eftir að þjálfarastaðan yrði skoðuð yrði samtalið tekið. Ekkert varð úr því og ég fór því einn daginn upp á skrifstofu og þá var mér tilkynnt að það væri búið að taka ákvörðun um að semja ekki við mig."
„Eftir á heyrði ég frá fólki að ónefndir aðilar ætluðu að hafa mig góðan út desember, þar til tímabilið væri búið, og svo tilkynna mér það að þeir ætluðu ekki að semja við mig. Eftir tólf ár hjá félaginu þá fannst mér ég eiga skilið að fá að vita sannleikann strax, mér fannst þetta vanvirðing."
„Hausinn fór þarna í 'fokk-it mode'. Jú, ég vildi gera vel fyrir liðsfélagana, en svo kemur nýr þjálfari inn með sínar hugmyndir og ég fer á bekkinn. Það var mjög erfitt að mæta á æfingu þegar ég vissi að ég yrði ekki áfram eftir tímabilið og vissi að ég myndi ekki spila meira. Ég mætti alltaf og reyndi að gera mitt besta, en það var virkilega erfitt."
Damir spilaði gegn KuPS og Stjörnunni í fyrstu leikjunum undir stjórn Ólafs Inga en var svo á bekknum gegn Shakhtar. Það reyndist eini leikurinn sem hann var á bekknum því Ásgeir Helgi Orrason, sem kom inn í lið Blika í stað Damirs, meiddist og gat ekki spilað lokaleikina í Sambandsdeildinni.
„Ég vissi fyrir leikinn gegn Shakhtar að ég væri ekki að fara spila meira, og allt í góðu með það, Ásgeir á fyllilega skilið að spila. Það var erfitt að koma hausnum í gang, allt í einu átti ég að fara spila aftur. Það var áfram erfitt að mæta á æfingar, en einhvern veginn náði ég að skipta um gír þegar kom að leikjunum og setja hausinn og liðsfélagana í fyrsta sætið."
Erfitt að mæta á æfingar
Það er ljóst að Damir vildi vera áfram hjá Breiðabliki og hann var svekktur að fá ekki tækifærið á því að klára ferilinn hjá félaginu. Það var tekin umdeild ákvörðun í haust þegar stóð til boða að fá Gísla Eyjólfsson aftur heim frá Svíþjóð en ákveðið var að semja ekki við hann og samdi hann á Skaganum. Damir fékk ekki nýjan samning og leit út fyrir að Breiðablik ætlaði sér að yngja leikmannahópinn. Í kjölfarið var svo endursamið við reynsluboltana Kristin Jónsson og Andra Rafn Yeoman.
„Auðvitað vildi ég vera áfram hjá félagi sem ég hafði verið hjá langstærstan partinn af ferlinum. Ég viðurkenni að ég bjóst við því að ég yrði áfram. Breiðablik virtist ætla að fara einhverja aðra stefnu, yngja upp, en miðað við það sem maður er svo að sjá eru eldri leikmenn að skrifa undir. Ég veit því ekki alveg hvað félagið ætlar að gera."
Vita hver þau eru
Fannst þér þetta kaldar kveðjur eftir þína frammistöðu í grænu treyjunni í rúman áratug?
„Ég veit það ekki, segi það kannski ekki. Ég elska þetta félag, hef sagt það áður, en það er fólk í klúbbnum sem ég ber núll virðingu fyrir. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn, ég held að það fólk viti alveg hver þau eru."
Ætlar þú að halda með Breiðabliki?
„Ég mun alltaf halda með Breiðabliki og liðfélögunum sem ég er búinn að spila heillengi með."
„Það var allt í góðu að ég fékk ekki nýjan samning, en það hefði verið gott að fá að vita hver lendingin yrði. Það var ekkert vandamál að ég fengi ekki nýjan samning, en það hefði verið fínt að fá smá virðingu eftir 12-13 ár."
Fór eins og það fór
Hvernig fannst þér þín frammistaða eftir heimkomuna?
„Það situr þannig séð ekki neitt í mér, ég ætla ekki að segja að frammistaða mín hafi verið neitt frábær, og markmiðið var að koma heim og vinna deildina aftur. Stundum er þetta þannig að liðið er ekkert að fúnkera og nær ekki að vinna. Þetta fór eins og það fór. Væntingarnar voru aðrar en það því miður gekk ekki upp."
Breiðablik vann Shamrock eftir að ljóst varð Damir yrði ekki áfram, fyrsti sigur í deildarleik í Evrópu staðreynd. Var tilfinningin öðruvísi?
„Nei nei, mér leið vel. Hausinn var eins og ég segi kominn í smá 'fokk-it mode'. En mér leið virkilega vel að vinna leikinn og pening í kassann fyrir félagið."
Upplifir bjartsýni í Grindavík
Damir er eins og fyrr segir búinn að semja við Grindavík og hann er byrjaður að æfa með liðinu.
„Það er helvíti næs að vera kominn í Grindavík, hingað til hefur þetta verið mjög fínt. Ég tók fyrst fimm æfingar með þeim og fékk svo frí, byrjaði svo að æfa aftur í gær. Þetta er allt að fara á fullt hjá okkur."
Er búið að síast inn að þú verðir ekki í Bestu deildinni næsta sumar?
„Já, það er komið. Mér persónulega fannst mér þurfa að ná því mjög fljótlega eftir að ég skrifaði undir hjá þeim. Ég átta mig alveg á því að ég er að fara í allt annan fótbolta og öðruvísi deild. Ég átta mig á því að Grindavík er ekki á sama stað og Breiðablik. Það er undir mér komið að koma inn í félagið og skrifa nýja sögu með þeim."
Ertu að vonast til þess að koma þín hjálpi til við að landa fleiri öflugum leikmönnum?
„Hundrað prósent, ég vona það innilega. Okkur langar til að skrifa söguna aftur og vonandi fær koma mín til Grindavíkur fleiri til að koma."
Síðustu ár hafa verið mjög óvenjuleg í Grindavík vegna jarðhræringa. Hvernig upplifir þú stemninguna?
„Ég upplifi bjartsýni. Þegar ég fór og skrifaði undir í Grindavík var fullt af fólki í bænum og allt að fara í gang hægt og rólega og mikil stemning fyrir því að boltinn færi í gang aftur í Grindavík. Ég er virkilega spenntur," segir Damir að lokum.
Athugasemdir




