Fótbolti.net heldur áfram að skyggnast inn í lífið í 1. deild kvenna í gegnum liðinn „Hvað er að frétta?".
Í dag er komið að því að kanna stemninguna hjá Álftanesi og er það hún Guðleif Edda Þórðardóttir sem segir okkur frá gangi mála.
Álftanesi hefur ekki gengið nægilega vel í sumar og situr í botnsæti A-riðils er þetta er skrifað. Liðið vann þó sinn fyrsta sigur á dögunum og Guðleif Edda vonast til að liðið nái að snúa gæfunni sér í hag á lokasprettinum.
Kíkjum á stemmarann hjá Álftnesingum:
Í dag er komið að því að kanna stemninguna hjá Álftanesi og er það hún Guðleif Edda Þórðardóttir sem segir okkur frá gangi mála.
Álftanesi hefur ekki gengið nægilega vel í sumar og situr í botnsæti A-riðils er þetta er skrifað. Liðið vann þó sinn fyrsta sigur á dögunum og Guðleif Edda vonast til að liðið nái að snúa gæfunni sér í hag á lokasprettinum.
Kíkjum á stemmarann hjá Álftnesingum:
Álftanes:
Erkifjendur: Eigum svosem enga erkióvini, en HK/Víkingur hefur verið með okkur í riðli í öllum mótum frá því Álftanes tefldi fyrst fram liði, þannig að leikirnir við þær eru alltaf extra mikil barátta
Heimavöllur: Bessastaðavöllur – eða öðru nafni Forsetavöllurinn á Álftanesi
Fyrirliði: Sigrún Auður Sigurðardóttir
Þjálfari: Ásgrímur Helgi Einarsson
Erkifjendur: Eigum svosem enga erkióvini, en HK/Víkingur hefur verið með okkur í riðli í öllum mótum frá því Álftanes tefldi fyrst fram liði, þannig að leikirnir við þær eru alltaf extra mikil barátta
Heimavöllur: Bessastaðavöllur – eða öðru nafni Forsetavöllurinn á Álftanesi
Fyrirliði: Sigrún Auður Sigurðardóttir
Þjálfari: Ásgrímur Helgi Einarsson
Hvernig er stemningin hjá Álftanesi?
Stemningin í liðinu er eins og alltaf góð. Við náum allar vel saman og liðsheildin hefur alltaf verið okkar styrkur. Undirbúningstímabilið var langt og strangt og einkenndist af óteljandi ferðum af öfug-göngu (sérlegt Áka-special) og burpees og liðið kom í miklu betra standi inn í sumarið núna heldur en á síðasta tímabili. Hápunkturinn fyrir sumarið var svo klárlega góð æfingaferð til Egilsstaða þar sem liðið náði að hrista sig enn betur saman. Þrátt fyrir brösugt gengi framan af sumri, þá er mórallinn ennþá góður og við erum allar staðráðnar í því að standa áfram þétt saman í baráttunni.
Hvernig er liðið ykkar byggt upp?
Þetta er bara annað árið í röð sem Álftanes sendir meistaraflokk kvenna til keppni, þannig að liðið er í raun enn að slípast saman. Við stelpurnar komum úr öllum áttum, hópurinn er blanda af „gömlum“ kempum héðan og þaðan og ungum og efnilegum stelpum af nesinu og við þekktumst fæstar fyrir, en strax frá upphafi small hópurinn alveg ótrúlega vel saman og hressleikinn er alltaf til staðar.
Hafa orðið miklar breytingar á liðinu frá því í fyrra?
Eins og áður sagði er þetta bara annað árið sem Álftanes teflir fram meistaraflokki, þannig að það er lítil reynsla komin á starfið. Kjarninn í hópnum er samt sá sami og í fyrra, þó einhverjar hafi þurft að leggja skóna a.m.k. tímabundið, á hilluna, vegna meiðsla, barneigna og annarra ástæðna, þá höfum við fengið góðar stelpur inn í hópinn í staðinn. Áherslurnar eru þó aðeins aðrar en í fyrra, en þá var frekar lítill aðdragandi að stofnun flokksins og undirbúningstímabilið hófst seint og var þ.a.l. ekki mjög markvisst. Á þessu tímabili var strax sett stefna á að bæta í og gera þetta af meiri alvöru og æfingarnar í vetur og vor þess vegna mun stífari og formið betra.
Ertu ánægð með byrjunina á tímabilinu?
Nei, alveg langt því frá. Liðið fór af stað inn í sumarið með ákveðin markmið og staðan okkar í deildinni segir allt sem segja þarf – þeim markmiðum höfum við alls ekki náð.
Liðið hefur klárlega getuna og viljann til að standa sig betur og það er í raun ótrúlegt að við höfum ekki fengið meira út úr leikjum sumarsins. Markadísirnar hafa alls ekki verið á okkar bandi, en núna eru loksins komin langþráð þrjú stig í hús og við erum staðráðnar í því að halda áfram að sýna okkar rétta andlit. Við höldum amk jákvæðninni og gefumst ekkert upp.
Hvert er markmið sumarsins hjá ykkur?
Markmiðin eru að sjálfsögðu að fara í alla leiki til að vinna þá. Fyrir tímabilið settum við okkur markmið sem við þurfum kannski eitthvað að endurskoða, en það er samt alveg á hreinu að við ætlum að fara í seinni umferðina og gera miklu betur en í þeirri fyrri.
Hvað hefur komið þér mest á óvart í sumar?
Deildin er mun jafnari heldur en ég bjóst við, sem er að sjálfsögðu bara skemmtilegt og jákvætt að við séum ekki að sjá eins stórar tölur í leikjum og undanfarin ár.
Hvað Álftanesliðið varðar, þá hefur árangurinn – eða skortur á honum – að sjálfsögðu komið á óvart, því við ætluðum okkur svo miklu betur.
Hvaða lið telurðu að verði í mestu baráttunni um að fara upp í sumar?
Í okkar riðli held ég að það sé alveg ljóst að FH er með eitt af bestu liðunum, þær eru alveg ótrúlega sterkar og svo virðist Selfoss vera að gera góða hluti í hinum riðlinun,
Komdu með eina skemmtilega staðreynd um félagið sem fólk veit ekki um:
Aldursmunurinn á milli þeirrar elstu og þeirrar yngstu í liðinu eru 20 ár – s.s. ansi breiður og fjölbreyttur hópur.
Eitthvað að lokum?
Þar sem að staða sveitarfélagsins er ekki mjög sterk og lítinn stuðning að hafa þaðan, höfum við stelpurnar og meistaraflokksráðið, sem stendur þétt við bakið á okkur, þurft að fjármagna allan rekstur, ferðir og allt sem því fylgir, með óteljandi fjáröflunum og mikilli vinnu. Það er því tilvalið að þakka öllum sem hafa styrkt okkur alveg kærlega fyrir… Þá sérstaklega íbúum Álftaness og ættingjum og vinum sem hafa fengið ansi margar söluheimsóknir frá okkur í vetur og tekið alveg ótrúlega vel á móti okkur.
Að sjálfsögðu verður svo að minnast á það hversu frábært starf Fótbolti.net er að vinna með umfjöllun um kvennaboltann.. Ekkert nema jákvætt!