banner
   fim 29. mars 2012 18:00
Frans Elvarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Tónlistin í klefanum
Frans Elvarsson
Frans Elvarsson
Spánverjar hlustuðu á Kasabian á HM 2010.
Spánverjar hlustuðu á Kasabian á HM 2010.
Mynd: Getty Images
Ómar Jóhannsson stjórnaði tónlistinni hjá Keflavík í fyrra.
Ómar Jóhannsson stjórnaði tónlistinni hjá Keflavík í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Arjen Robben kemur sér í gírinn fyrir leik.
Arjen Robben kemur sér í gírinn fyrir leik.
Mynd: Getty Images
Í flestum íþróttum í dag er mikið notast við tónlist til að ná réttu spennustigi fyrir leik eða keppni. Þegar við sjáum keppendur mæta til leiks á keppnisstaði eru nánast allir með heyrnartólin á sér að hlusta á sína tónlist en gríðarlega misjafnt er hvað menn hlusta á því það er misjafnt hvað menn þurfa til að koma sér í rétta gírinn. Mörg dæmi eru um lið og einstaklinga sem hafa talað um hvernig tónlist hjálpaði eða dró þá jafnvel niður fyrir keppni. Mig langaði aðeins að skoða hvers konar tónlist fólk er að spila og fara líka aðeins yfir hvernig þetta er hjá okkur í Sunny Kef.

Ég man t.d. eftir því þegar Rio Ferdinand kenndi David Beckham um einhvern tapleik því Beckham sá um tónlistana fyrir leik og hann spilaði þá mikið af lögum fyrir félaga sína með Beyonce og Aliciu Keys en Ferdinand vildi frekar hlusta á rapp til að koma sér í gírinn. Að sjálfsögðu var þetta meira sagt í gríni en af alvöru en eins og stundum þá fylgir gríni einhver alvara.

Annað atvik sem ég man eftir var á HM 2010 þegar Spánverjar urðu heimsmeistarar. Þeir hlustuðu þá alltaf á ákveðið lag með bresku hljómsveitinni Kasabian fyrir leiki í keppninni og eftir keppnina þökkuðu þeir hljómsveitinni m.a.s. fyrir hjálpina við að vinna keppnina. Ég tel þó að þar hafi fótboltageta Spánverjanna haft aðeins meira að segja um titilinn en þeir hafa verið með yfirburðarlið í boltanum síðustu ár.

En það eru til mörg dæmi í boltanum þar sem tónlist er notuð til að ná réttu spennustigi. Sumir vilja hlusta á rólega tónlist til að slaka á ef menn eru eitthvað stressaðir en aðrir vilja eitthvað taktfastara til að ná upp þessari geðveiki fyrir leik, en það þarf að vera smá geðveiki í þessu eins og Gunnar Oddsson orðaði það einu sinni.

Hjá okkur í Keflavík, og sjálfsagt annars staðar, er erfitt að gera öllum til geðs. Af og til hafa menn tengt ipodinn sinn í græjurnar niðri í Keflavíkurklefa með misjöfnum viðbrögðum. Um daginn kveiktu yngri strákarnir í liðinu á lagi með tónlistarmanninum Skrillex eftir einhverja æfinguna og spurðu þeir eldri þá hvort þeir væru á leiðinni á eitthvað sýrutripp, þessi tónlist var frekar framandi í þeirra eyrum. Þeir eldri létu minna í sér heyra þegar Kanye West var kominn á fóninn en ég hef hinsvegar tekið eftir að öruggast er að setja á klassískt rokk, það fer vel í flesta.

Fyrir leiki síðastliðið sumar stjórnaði Ómar Jóhanns tónlistinni og fékk rokkið mikið að njóta sín. Lagið Ingimar með HAM varð t.d. mjög vinsælt. En svo fengum við að sjálfsögðu að heyra Keflavíkurnætur með Rúnna Júll heitnum og Jóa Helga í ófá skipti fyrir leik, en það fer beint í hjartað. Ég væri næstum til í að vera úr Keflavík þegar ég hlusta á það, en bara næstum. Stelst kannski í ipodinn til að hlusta á lagið um Njarðvík með Ástþóri Óðni og Kæra Höfn fyrst.

Mér sjálfum finnst gott að blanda þessu öllu saman og hlusta á rapp, rokk, tekknó, dubstep eða hvað þessar tónlistarstefnur heita. Góð tilfinningin þegar maður er kominn í sinn eigin heim og fókuseraður á verkefnið sem er framundan.

Nú til dags eiga allir ipod eða mp3 spilara og það er ekki spurning að það að hlusta á einhverja músík er góð leið til að ná réttu spennustigi fyrir leiki. Mörg dæmi sem sýna að það getur hjálpað að hlusta á tónlist og hvet ég menn og konur eindregið til að finna hvað virkar best fyrir þá.
Athugasemdir
banner
banner
banner