Bestur í 18. umferð - Ingvar Jónsson (Stjarnan)
,,Ég er mjög sáttur. Ég átti mjög góðan leik og það gekk nánast allt upp í leiknum. Það var gott að halda loksins hreinu," sagði Ingvar Jónsson markvörðiur Stjörnunnar við Fótbolta.net í dag en hann er leikmaður 18. umferðar eftir stórleik í 2-0 sigrinum á Val í fyrrakvöld.
Ingvar lenti í samsuði við Hauk Pál Sigurðsson snemma leiks og lá eftir í smástund áður en hann hélt leik áfram.
,,Ég vissi ekki hvort ég gæti haldið áfram því að ég dofnaði allur í hendinni í smástund en það var gott að geta spilað áfram."
Arnar Darri Pétursson gekk í raðir Stjörnunnar í vor og Ingvar segir að samkeppnin við hann hafi hjálpað sér að verða betri.
,,Ég held að samkeppnin geri öllum gott. Maður mætir einbeittur á hverja æfingu og ætlar að standa sig því að ef ég stend mig ekki þá tekur hann sætið því hann er frábær markvörður. Hann hefur fengið aðeins of mikla gagnrýni í gegnum tíðina að mínu mati en hann er bara tvítugur og á framtíðina fyrir sér. Það hefur verið mjög gott samstarf hjá okkur á æfingum og engin fýla eða neitt svoleiðis."
Arnar Darri fékk að spila leiki Stjörnunnar í Borgunarbikarnum og Ingvar varð því að sætta sig við að sitja á bekknum í bikarúrslitaleiknum gegn KR á dögunum.
,,Auðvitað var það svekkjandi, manni langaði að spila þennan leik. Þetta var ákvörðun þjálfaranna og maður virti hana og reyndi að styðja Arnar Darra og hjálpa honum í sínum undirbúningi. Hann var búinn að taka alla bikarleikina svo maður varð að skilja þetta."
,,Ég gat ekki verið að svekkja mig neitt, þetta var búin að vera góð vika. Ég var valinn í landsliðið og var vanur að vera á bekknum þarna, ég þekkti bekkinn á Laugardalsvelli," sagði Ingvar léttur í bragði en hann var valinn í fyrsta skipti í landsliðið gegn Færeyjum.
,,Það var gaman að æfa með öllum bestu leikmönnum landsins og sjá hvernig þetta er og sjá að það er ekki það fjarlægur draumur að vera í landsliðinu."
Ingvar er 22 ára gamall og hann á því nóg eftir í boltanum. ,,Ég horfi alltaf á Brad Friedel. Ég á 20 ár eftir fyrst hann er ennþá að spila 42 ára. Fólk virðist líka ekki fatta hvað ég er ungur. Liðsstjórinn okkar fattaði til dæmis bara um daginn að ég væri ekki 28 ára, hann hélt það."
Tveggja vikna hlé er í Pepsi-deildinni þessa dagana vegna landsleikja en næsti leikur Stjörnunnar er gegn FH. Þar getur FH orðið Íslandsmeistari með sigri.
,,Við nennum ekki að sjá þá fagna þarna. Strákarnir tala um að það hafi verið ömurlegt að sjá Blikana taka titilinn á Stjörnuvellinum og við viljujm ekki láta annað lið taka titilinn þarna. Við áttum góðan leik á móti FH í fyrra og vonandi verður þetta bara svipað," sagði Ingvar að lokum.
Sjá einnig:
Leikmaður 17. umferðar - Kolbeinn Kárason (Valur)
Leikmaður 16. umferðar - Baldur Sigurðsson (KR)
Leikmaður 15. umferðar - Pape Mamadou Faye (Grindavík)
Leikmaður 14. umferðar - Guðmundur Þórarinsson (ÍBV)
Leikmaður 13. umferðar - Bjarni Guðjónsson (KR)
Leikmaður 12. umferðar - Steven Lennon (Fram)
Leikmaður 11. umferðar - Gary Martin (ÍA)
Leikmaður 9. umferðar - Atli Guðnason (FH)
Leikmaður 8. umferðar - Kristinn Jónsson (Breiðablik)
Leikmaður 7. umferðar - Christian Olsen (ÍBV)
Leikmaður 6. umferðar - Atli Guðnason (FH)
Leikmaður 5. umferðar - Sam Tillen (Fram)
Leikmaður 4. umferðar - Kennie Chopart (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Kjartan Henry Finnbogason (KR)
Leikmaður 2. umferðar - Frans Elvarsson (Keflavík)
Leikmaður 1. umferðar - Ingólfur Þórarinsson (Selfoss)
Athugasemdir