
Það er óhætt að segja að Ragnar Sigurðsson hafi gert allt vitlaust í Króatíu með ummælum sínum um Mario Mandzukic, framherja Bayern Munchen og króatíska landsliðsins.
Ísland mætir Króatíu í umspili um sæti á HM 2014 í Brasilíu, en fyrri leikurinn fer fram á föstudaginn.
Ragnar var í viðtali við Arnar Björnsson á Stöð 2 í gær og aðspurður út í Mandzukic, sem er einn besti framherji heims, sagði hann:
„Ég er ekki að grínast en ég hef aldrei séð þennan mann. Er hann ekki í Bayern? Ég horfi ekki mikið á þýska boltann. Ég veit ekkert um hann. Ég hef heyrt að hann sé mjög góður.“
Þessi ummæli hafa fundið leið sína til Króatíu og nánast allir fjölmiðlar þar í landi hafa fjallað um málið.
Dagblöð, vefmiðlar og sjónvarpsstöðvar hafa allar fjallað um þessi ummæli Ragnars og vilja margir meina að einhver svakalegur sálfræðihernaður sé í gangi.
Sjónvarpsstöðin RTL spurði Mandzukic út í þessi ummæli og hann sagði: ,,Ég ræði við hann á vellinum!“
Landsliðsþjálfarinn Niko Kovac var einnig hissa.
,,Ég trúi því ekki að hann hafi sagt þetta. Í hreinskilni sagt, þá hef ég ekki séð þessi ummæli,“ sagði Kovac þegar hann var spurður hvort að um ögrun og sálfræðihernað væri að ræða.
Miðjumaðurinn Ivan Rakitic, sem leikur með Sevilla, bætti við: ,,Hann mun kynnast Mandza. En við gangum úr skugga um að þeir muni ekki bara muna eftir honum, heldur okkur öllum. Við ætlum að eiga góðan leik.“
Það er allavega greinilegt að Króatar fylgjast mjög vel með því sem á sér stað í íslenskum fjölmiðlum um þessar mundir.
Athugasemdir