
„Bara mjög erfitt. Maður er ekki búinn að því og ég veit ekki hvort maður muni gera það," sagði landsliðskonan Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir aðspurð að því hvernig hefði gengið að vinna úr tapinu gegn Sviss á EM í gær. Ísland er úr leik á mótinu eftir tapið þegar ein umferð er eftir af riðlinum.
„Maður verður bara að mæta í næsta leik til að vinna hann."
„Maður verður bara að mæta í næsta leik til að vinna hann."
Leikurinn í gær var betri en gegn Finnlandi en hann datt Sviss megin, því miður.
„Við hefðum getað unnið þetta en 0-2 er frekar ósanngjarnt," sagði Munda en það er erfitt fyrir liðið að ná ekki því markmiði að komast upp úr riðlinum.
„Það voru allir frekar tómir og búnir á því. Fólk vill halda andliti, fyrir þjóðina og stuðningsmennina sem komu, en þetta er erfitt. Svona er fótboltinn."
Áslaug Munda var að glíma við meiðsli fyrir mót og segir hún að það hafi verið skemmtilegt að taka þátt í þessu.
„Það munaði ekki miklu að ég væri ekki í þessum hóp vegna meiðsla. Ég er búin að reyna að njóta þess að vera hér með stelpunum og þetta hefur verið gaman, en það er auðvitað leiðinlegt að hafa ekki neitt til að fagna yfir. Við höfum ekki skorað nein mörk og ekki fengið nein stig. Maður er að reyna að byggja sig upp en þetta gengur ekki alveg með okkur," sagði Áslaug Munda.
Það er einn leikur eftir á móti Noregi.
„Dagurinn í dag... fólk ætlar að ná þessum leik út úr sér. Svo er fókus á næsta leik því við ætlum að vinna hann og fara heim með eitthvað allavega," sagði þessi öflugi leikmaður að lokum.
Athugasemdir