Real Madrid tryggði sér þátttöku í undanúrslitum HM félagsliða með sigri gegn Borussia Dortmund í gærkvöldi.
Madrídingar voru talsvert sterkari aðilinn í leiknum en Þjóðverjarnir neituðu að gefast upp og komust grátlega nálægt því að jafna leikinn seint í uppbótartíma.
Real Madrid leiddi 2-0 allt þar til í uppbótartíma þegar allt varð vitlaust. Fimm mínútum var bætt við og minnkaði Maximilian Beier muninn á 93. mínútu en í næstu sókn virtist Kylian Mbappé gera út um leikinn með glæsilegri afgreiðslu.
Staðan var því orðin 3-1 á 94. mínútu en í næstu sókn beint eftir þetta fékk Dortmund dæmda vítaspyrnu. Dean Huijsen varnarmaður Real fékk að líta beint rautt spjald og skoraði Serhou Guirassy af vítapunktinum.
Real Madrid tók miðjuna en leikmenn Dortmund unnu boltann fljótt aftur. Þeir áttu aðeins eina sókn eftir áður en brasilíski dómarinn Ramon Abatti flautaði leikinn af. Þeim tókst að skapa sér gott færi úr þessari einu sókn þar sem Marcel Sabitzer komst í flott skotfæri og átti góða marktilraun.
Það eru ekki margir markverðir sem hefðu varið þennan bolta, en Thibaut Courtois tókst að setja hendi á boltann. Skotið var fast svo Courtois þurfti að setja mikinn styrk í markvörsluna og endaði á að handsama boltann. Lokatölur 3-2 fyrir Real Madrid sem mætir PSG í undanúrslitum.
Sjáðu markvörsluna
Athugasemdir