Madueke og Gyökeres til Arsenal - Kudus til Tottenham - Chelsea þarf að selja
   mán 07. júlí 2025 19:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ein óvæntasta saga sumarsins - „Hefur alla burði til þess að halda áfram á uppleið"
Skoraði sitt fimmta mark í sumar þegar hann minnkaði muninn gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks á fimmtudag.
Skoraði sitt fimmta mark í sumar þegar hann minnkaði muninn gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks á fimmtudag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Frá því í fyrra hefur hann bætt sig í mjög mörgum hlutum leiksins'
'Frá því í fyrra hefur hann bætt sig í mjög mörgum hlutum leiksins'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Fyrst og fremst held ég að hann njóti þess í botn að spila í Mosfellsbæ'
'Fyrst og fremst held ég að hann njóti þess í botn að spila í Mosfellsbæ'
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
'Samvinna hans og Arons Elí vinstra meginn hefur orðið ennþá betri í ár'
'Samvinna hans og Arons Elí vinstra meginn hefur orðið ennþá betri í ár'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Geggjað að sjá hvað það er mikil gleði í leik hans'
'Geggjað að sjá hvað það er mikil gleði í leik hans'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hrannar Snær Magnússon er ein af sögum sumarsins til þessa í Bestu deildinni. Hann hefur komið langflestum á óvart með öflugri frammistöðu og öllum með því að hafa skorað fimm mörk í fyrstu fjórtán leikjum sínum í Bestu deildinni.

Hrannar, sem er á sínu öðru tímabili með Aftureldingu, hefur spilað á vinstri kantinum og hefur myndað öflugt þríeyki með þeim Benjamin Stokke og Elmari Kára Enessyni Cogic í fremstu línu.

Hann kom frá Selfossi þar sem hann lék fimmtán leiki í Lengjudeildinni með liði sem féll úr deildinni. Hann er dæmi um það magnaða sem getur gerst í fótboltanum, þann 21. júlí 2023 kom Hrannar inn á í stöðunni 4-0 fyrir Aftureldingu gegn Selfossi, lokatölur í þeim leik urðu 9-0 og Selfoss endaði á því að falla úr deildinni á einu marki.

Tæpum tveimur árum seinna er Hrannar að blómstra í Bestu deildinni. Hvað hefði gerst ef Selfoss hefði náð að halda sér uppi? Kannski hefði hann ekki rift samningi sínum og endað í Mosó, hver veit.

Fótbolti.net ræddi við Magnús Má Einarsson, þjálfara Aftureldingar, um Ólafsfirðinginn.

Hvað sástu í Hrannari þegar þú sóttir hann frá Selfossi eftir tímabilið 2023?

„Haustið 2023 vorum við í leit að liðsstyrk og eftir að hafa séð til Hrannars í Lengjudeildinni og heyrt góða hluti um karakter hans ákváðum við að fá hann til að æfa með okkur," segir Maggi.

„Ég og Enes hrifumst af honum strax á fyrstu æfingu og í kjölfarið náðum við að sannfæra hann um að ganga til liðs við Aftureldingu. Félög í Bestu deildinni höfðu einnig áhuga á honum á þessum tímapunkti en við kynntum fyrir honum hvað við vildum gera til að hjálpa honum að bæta sig og hvernig hann gæti hjálpað liðinu hjá okkur að taka næsta skref og komast upp í Bestu deildina."

„Hrannar hafði verið í skóla í Bandaríkjunum í þrjú ár og ekki tekið undirbúningstímabil á Íslandi og misst af hluta tímabilsins á hverju ári. Að ná heilu undirbúningstímabili hjálpaði honum að koma í góðum gír inn í mótið í fyrra og hann hefur haldið áfram á flugi síðan þá."

„Þegar Hrannar kom í Aftureldingu þá hafði hann líka verið að flakka á milli þess að spila sem bakvörður og kantmaður en við ákváðum frá fyrsta degi að láta hann spila á kantinum þar sem hann hefur marga eiginleika sem góður kantmaður þarf að búa yfir. Reyndar rifjaði hann upp gamla bakvarðartakta í leik gegn ÍBV í Eyjum á dögunum þegar tveir bakverðir meiddust hjá okkur í sama leiknum og hann leysti það hlutverk með miklum sóma í 40 mínútur."


Hrannar skoraði þrjú mörk þegar Afturelding fór upp úr Lengjudeildinni í fyrra sem var það mesta sem hann hafði skorað á einu tímabili á ferlinum. Hvað hefur Hrannar gert vel eftir komuna í Mosó og hvernig er hægt að útskýra þetta framlag sóknarlega?

„Hrannar hefur bætt sig í hverri viku nánast síðan hann kom til okkar. Hann er mjög vinnusamur og viljugur í að æfa og bæta sig eins og aðrir leikmenn í okkar liði. Frá því í fyrra hefur hann bætt sig í mjög mörgum hlutum leiksins. Ákvarðanatökur á síðasta þriðjungi eru betri og það leiðir af sér fleiri mörk. Hann spilar af ennþá meiri gleði með liðsfélögum sínum, heldur bolta betur og bakvarðargrunnurinn hefur sést í öflugum varnarleik svo eitthvað sé nefnt. Honum líður mjög vel í hópnum enda er liðsheildin mjög sterk í Aftureldingu og allir að vinna saman að því að verða betra lið. Hrannar er einnig kominn ennþá betur inn í leikstílinn og spilið hjá Aftureldingu núna á öðru ári í Mosfellsbæ auk þess sem samvinna hans og Arons Elí vinstra meginn hefur orðið ennþá betri í ár. Fyrst og fremst held ég að hann njóti þess í botn að spila í Mosfellsbæ eins og frammistaða hans hefur sýnt í sumar og það er geggjað að sjá hvað það er mikil gleði í leik hans."

Hrannar var orðaður við Val í vetur en ákvað að framlengja samning sinn við félagið í maí.

Hversu ánægjulegt er að hann hafi sýnt þessa trú á þetta verkefni og framlengt?

„Það er auðvitað stórkostlegt. Við erum mjög ánægðir með hópinn og það er frábært að sjá að leikmenn hafa mikla trú á vegferðinni sem við erum í. Ég held að Hrannar hafi ákveðið að skrifa undir nýjan samning eftir að hann sá að Afturelding getur gert góða hluti í Bestu deildinni og að hann getur hjálpað liðinu þar. Afturelding er á betri stað núna en þegar Hrannar skrifaði undir í desember 2023 en við viljum meira og ég hlakka mikið til að sjá Hrannar halda áfram að taka skref fram á við og verða ennþá betri leikmaður. Hann hefur alla burði til þess að halda áfram á uppleið," segir Maggi.
Athugasemdir
banner