Galatasaray og Napoli hafa náð samkomulagi um kaup og sölu á nígeríska framherjanum Victor Osimhen en um er að ræða metkaup í Tyrklandi.
Þessi 26 ára gamli framherji fór til Galatasaray á láni á síðasta ári eftir að honum var tjáð að hann yrði ekki í hópnum hjá Napoli fyrir leiktíðina.
Hann hafði leitað sér að nýju félagi allt sumarið, en launakröfur hans fældu félög í burtu og á endanum var hans eini kostur að fara til Tyrklands.
Þar sló hann í gegn og hjálpaði Galatasaray að landa deildarmeistaratitlinum í 25. sinn í sögu félagsins.
Osimhen hefur skoðað marga kosti í sumar. Hann hefur verið orðaður við Chelsea, Liverpool, Manchester United og félög í Sádi-Arabíu, en nú er allt útlit fyrir að hann verði áfram hjá Galatasaray.
Ítalski blaðamaðurinn Gianluca Di Marzio segir Galatasaray hafa náð samkomulagi við Osimhen og Napoli. Samkvæmt Fabrizio Romano hafnaði Napoli fyrsta tilboði upp á 60 milljónir evra en hefur nú samþykkt að greiða uppsett verð sem er 75 milljónir.
Osimhen mun skrifa undir fjögurra ára samning og þéna 16 milljónir evra í árslaun.
Nígeríumaðurinn verður bæði dýrasti og launahæsti leikmaður í sögu deildarinnar.
Athugasemdir