
„Sár, svekkt og leið. Það er svona það helsta. Erfitt að ná ekki markmiðum sínum," sagði landsliðskonan Alexandra Jóhannsdóttir þegar hún ræddi við Fótbolta.net fyrir æfingu liðsins í Sviss í dag.
Landsliðið tapaði 0-2 gegn Sviss í gær í öðrum leik sínum á Evrópumótinu. Þar með er liðið úr leik.
Landsliðið tapaði 0-2 gegn Sviss í gær í öðrum leik sínum á Evrópumótinu. Þar með er liðið úr leik.
„Í gær og dag getum við verið sárar, svekktar og leiðar. Svo þurfum við að setja nýtt markmið, að vinna leikinn gegn Noregi á fimmtudaginn."
Leikurinn í gær var betri en fyrsti leikurinn gegn Finnlandi, en það dugði ekki til. Var það mjög sárt fyrir leikmenn liðsins.
„Þú getur rétt ímyndað þér hversu sárt þetta var og hvernig stemningin var inn í klefanum. Við settum okkur stórt markmið fyrir mót en það komast ekki nema tvö lið upp úr riðlinum. Við erum ógeðslega svekktar þar sem við ætluðum okkur meira en þetta," sagði Alexandra.
Fer snemma að sofa í kvöld
Stelpurnar voru mættar seint upp á hótel í gærkvöldi þar sem leikurinn kláraðist um klukkan 23 að staðartíma. Þær náðu ekki miklum svefni áður en þær mættu á æfingu í dag.
„Ég er ekki sú ferskasta núna. Ég náði einhverjum fimm tímum eða eitthvað og fer snemma að sofa í kvöld," sagði Alexandra en hún segir vonbrigðin ekki meiri núna en á EM 2022 í Englandi þar sem liðinu mistókst einnig að fara upp úr riðlinum.
„Það voru líka ógeðslega mikil vonbrigði á síðasta móti og ógeðslega sárt núna. Ég veit ekki hvað ég á að segja meira en það," sagði miðjumaðurinn.
Allt viðtalið er í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir