Javier Tebas forseti La Liga, efstu deildar spænska boltans, stendur fast á móti HM félagsliða og segir keppnina hafa neikvæð áhrif á vistkerfi fótboltaheimsins.
Atlético Madrid og Real Madrid eru spænsku félögin sem taka þátt í HM félagsliða sem fer fram í Bandaríkjunum. Atlético datt úr leik í riðlakeppni en Real er komið alla leið í undanúrslitin.
„Þetta hefur svo sannarlega verið hræðilegt heimsmeistaramót. Deildir og fótboltamenn eru að rífast, leikjaáætlunum hefur verið rústað og vistkerfi fótboltaheimsins hefur beðið alvarlegan skaða, þar sem hundruðir þúsunda starfsmanna innan fótboltaheimsins finna fyrir áhrifunum," skrifaði Tebas meðal annars í færslu á samfélagsmiðlum.
Hann lét viðhengi fylgja með færslunni. Viðhengið er grein úr New York Times sem fjallar um miðaverð á undanúrslitaleik heimsmeistaramótsins þar sem Chelsea spilar við Palmeiras. Þar er tekið fram hvernig miðaverð á leikinn fór úr 473 dollurum niður í 13 á þremur sólarhringum í tilraun til að fá fólk á völlinn.
Tebas hefur einnig gagnrýnt aðra þætti í kringum heimsmeistaramótið harðlega, svo sem skattamál, launamál og sjónvarpsréttindamál.
„Megi Guð bjarga okkur undan þessum brjálæðingum," skrifaði Tebas að lokum í færslunni. Þarna virðist Tebas hafa verið að skjóta beint á Florentino Pérez forseta Real Madrid sem virðist mjög stoltur af sínum þætti í skipulagningu heimsmeistaramótsins.
Tebas og Pérez hafa átt í orðaskiptum síðastliðið ár og hefur togstreitan á milli Real Madrid og stjórnar La Liga aldrei verið meiri.
Athugasemdir