Madueke og Gyökeres til Arsenal - Kudus til Tottenham - Chelsea þarf að selja
   mán 07. júlí 2025 17:38
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jón Þór um kvennalandsliðið: Það er það sem öskrar á mann
Icelandair
EM KVK 2025
Jón Þór Hauksson var þjálfari landsliðsins 2018-2020.
Jón Þór Hauksson var þjálfari landsliðsins 2018-2020.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson.
Mynd: KSÍ
Velti fyrir sér hvort að Dagný hefði átt að spila fremst.
Velti fyrir sér hvort að Dagný hefði átt að spila fremst.
Mynd: EPA
Berglind Björg er markahæst í Bestu deildinni með níu mörk í tíu leikjum.
Berglind Björg er markahæst í Bestu deildinni með níu mörk í tíu leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland tapaði gegn Sviss í 2. umferð riðlakeppninnar á EM í gær og með þeim úrslitum er ljóst að liðið á ekki möguleika á því að komast í 8-liða úrslitin. Ísland tapaði gegn Finnlandi, 1-0, í fyrstu umferð, tapaði 2-0 í gær og mætir svo Noregi í lokaumferð riðilsins á fimmtudag.

Fyrrum þjálfari kvennalandsliðsins, Jón Þór Hauksson, var gestur í Þungavigtinni þar sem rætt var um íslenska liðið. Jón Þór var þjálfari liðsins á árunum 2018-20.

„Að einhverju leyti erum við farin að ofmeta getu liðsins vegna þess að við höfum einfaldlega ekki náð því besta út úr okkar bestu leikmönnum. Við erum með virkilega öflugan hrygg í þessu liði; með Cecilíu í markinu, Glódísi sem er okkar eini heimsklassaleikmaður, með Alexöndru sem er að mínu mati virkilega öflugur miðjumaður og með henni Karólínu Leu á miðjunni. Svo erum við með Sveindísi sem á að vera frábær leikmaður á þessu sviði."

„Það sem okkur hefur mistekist er að fá þetta til að smella. Mér hefur fundist vanta senter í þetta lið, einhvern markaskorara eða öflugan senter til að fullkomna þennan hrygg í liðinu. Við höfum verið í miklu veseni með það sýnist mér síðustu árin. Þegar ég kláraði mína undankeppni þá var Elín Metta á eldi og Berglind Björg að spila virkilega vel. (Hvernig Berglind Björg kemst ekki í þennan hóp) er eitthvað sem maður veltir fyrir sér. Annað sem maður veltir fyrir sér, miðað við hversu illa þetta hefur gengið, af hverju erum við ekki að finna leiðir til þess (að láta þetta ganga), af því þú hefur eiginlega ekkert nema tíma til að undirbúa svona mót. Þú ert að spila Þjóðadeildina á undan og hvað er það annað en undirbúningur fyrir þetta mót, af hverju erum við ekki komin með lausnina? Það er það sem öskrar á mann, til þess að fullkomna þennan hrygg þá finnst manni vanta einhvern upp á topp. Það getur vel verið að það sé búið að vinna statt og stöðugt í því, en það hefur ekki tekist og það er mikið áhyggjuefni,"
segir Jón Þór og heldur áfram.

„Það vantar ákveðið púsl í leik liðsins, það er vitað að ef þú hefur alvöru senter þá eru svo margir hlutir sem raðast í kringum það. Maður veltir fyrir sér með Dagnýju Brynjarsdóttur, sem hefur verið inn og út úr þessu, er það senterinn sem mögulega hefði nýst þessu liði? Hún er frábær inn í teig, virkilega ógn af henni inn í teig, góð með bakið í markið, gæti verið flott sem fremsti varnarmaður. Hún hefur ekki alveg fundið sitt pláss inn á miðjunni hjá Steina. Maður veltir fyrir sér hvort það hefði getað verið lausnin, eða að þær liggi annars staðar. Allavega sýnist manni það hafa mistekist fyrir þetta mót að finna síðasta púsl í þessum hrygg."

Jón Þór var rekinn í desember 2020 vegna óviðeigandi hegðunar eftir að hafa komið liðinu á EM sem haldið var 2022. Þorsteinn Halldórsson var svo í kjölfarið ráðinn í starfið. Í þættinum var rætt um stöðu núverandi landsliðsþjálfara.

„Nú þurfa Þorvaldur Örlygs og félagar að koma sér heim, rýna í rólegheitunum í þetta, sjá á hvaða leið liðið er, hvað þeir eru með í höndunum, hvað er búið að gera og fara yfir stöðuna. Svo verður bara tekin einhver ákvörðun."

Hann var spurður hvort hann hefði áhuga á að taka við starfinu ef það yrðu gerðar breytingar.

„Nei," sagði Jón Þór og hló. „Ég held að það væru helvíti margir sem kæmu að borðinu áður en það kæmi að því (að mér yrði boðið starfið). Ég hefði ekki áhuga á því. Ég held að ef til þess kemur að Steini eða forsvarsmenn KSÍ telji það bestu lausnina að fara í þjálfaraskipti eftir þetta mót, þá væri myndi ég skoða það alvarlega að fara í erlendan þjálfara - ekki það að ég sé talsmaður þess í þjálfarabransanum hérna á Íslandi. Það eru þjálfarar hérna heima sem gera tilkall, en manni finnst andinn og stemningin í þá átt að það þurfi eitthvað algjörlega nýtt og aðra nálgun á þetta," segir Jón Þór.
Athugasemdir
banner