Tottenham og Newcastle hafa áhuga á Grealish - Newcastle bjartsýnt á að fá Guehi - Elanga í læknisskoðun
   þri 08. júlí 2025 22:29
Brynjar Ingi Erluson
Ísak Snær á leið til Lyngby
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ísak Snær Þorvaldsson er á leið til danska félagsins Lyngby á láni frá Rosenborg. Þetta segir norski blaðamaðurinn Stian Wahl á X í kvöld.

Framherjinn hefur fengið fá tækifæri með Rosenborg á tímabilinu og verið ónotaður varamaður í síðustu þremur leikjum.

Hann hefur verið orðaður við Breiðablik síðustu vikur en Halldór Árnason, þjálfari Blika, útilokaði þann möguleika fyrir nokkrum dögum.

Í kvöld segir Stian Wahl hjá Nettavisen að Ísak sé á leið til Lyngby í Danmörku.

Félagið fær hann á láni út tímabilið og á möguleika á því að gera skiptin varanleg á meðan lánsdvölinni stendur.

Lyngby, sem féll úr dönsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, er mikið Íslendingafélag.

Freyr Alexandersson þjálfaði Lyngby við góðan orðstír frá 2021 til 2024, þar sem hann kom meðal annars liðinu upp í efstu deild og spiluðu fjölmargir Íslendingar undir hans stjórn þeir Sævar Atli Magnússon, Kolbeinn Birgir Finnsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Alfreð Finnbogason, Frederik Schram og Andri Lucas Guðjohnsen.

Fyrrum landsliðsmennirnir Baldur Bragason og Hallgrímur Jónasson léku árum áður með liðinu. Baldur, sem gerði garðinn frægan hjá Val og Leiftri, spilaði á láni hjá Lyngby frá 1996 til 1997 á meðan Hallgrímur, sem spilaði í átta ár í atvinnumennsku, lék með liðinu frá 2016 til 2017 áður en hann sneri heim og samdi við KA.

Þeir Ingólfur Sigurðsson og Þorri Stefán Þorbjörnsson voru einnig á mála hjá félaginu en léku ekki keppnisleik með aðalliðinu.
Athugasemdir
banner
banner