
Sviss 2 - 0 Ísland
1-0 Geraldine Reuteler ('76)
2-0 Alayah Pilgrim ('90)
1-0 Geraldine Reuteler ('76)
2-0 Alayah Pilgrim ('90)
Lestu um leikinn: Sviss 2 - 0 Ísland
Stelpurnar okkar í íslenska landsliðinu mættu til leiks í 2. umferð Evrópumótsins í Sviss og þurftu sigur gegn heimakonum.
Stelpurnar byrjuðu vel þar sem Ingibjörg Sigurðardóttir átti þrumuskot sem small í samskeytunum og skaust burt frá markinu strax á fyrstu mínútu. Færið kom eftir langt innkast frá Sveindísi Jane Jónsdóttur.
Það var mikill hraði á upphafsmínútunum og var íslenska liðið hættulegra en tókst þó ekki að koma sér í gott færi. Þegar tók að líða á hálfleikinn urðu þær svissnesku betri og komu boltanum í netið, en ekki dæmt mark eftir athugun í VAR-herberginu vegna augljóss brots í aðdragandanum.
Guðný Árnadóttir þurfti að fara meidd af velli eftir um hálftíma af leiknum þar sem hún virðist hafa tognað aftan í læri. Undir lok hálfleiksins færðist aftur mikið fjör í leikinn þar sem Stelpurnar okkar komust í álitlegar stöður án þess að skapa sér færi, áður en heimakonur fengu góð færi í uppbótartímanum. Boltinn rataði þó ekki í netið.
Spænski dómari leiksins þótti ekki upp á marga fiska og voru Íslendingar duglegir að kvarta yfir henni á samfélagsmiðlum, en staðan var markalaus í leikhlé.
Stelpurnar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og átti Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skot í ofanverða slána úr aukaspyrnu en leikurinn róaðist svo niður. Þegar íslenska liðið virtist vera að ná tökum á leiknum skoruðu þær svissnesku eftir að hafa unnið boltann hátt uppi á vellinum.
Sydney Schertenleib fékk boltann eftir að Svisslendingar unnu hann og gaf góða sendingu á Geraldine Reuteler sem skoraði auðvelt mark. Þetta mark fékk Sviss á silfurfati.
Allur kraftur virtist horfinn úr Stelpunum okkar eftir þetta mark og tvöfaldaði Sviss forystuna eftir að hafa sýnt yfirburði á lokakafla leiksins.
Í þetta sinn skoraði Alayah Pilgrim eftir skyndisókn í kjölfar langs innkasts frá Sveindísi. Pilgrim gerði mjög vel að skora eftir góða sendingu frá Leila Wandeler.
Lokatölur 2-0 fyrir Sviss og er Ísland úr leik á EM eftir tvo tapleiki og ekkert mark skorað. Ísland hefur ekki komist upp úr riðli á EM síðan 2013.
Sviss og Finnland spila úrslitaleik um 2. sætið í lokaumferð riðlakeppninnar. Þar nægir Svisslendingum jafntefli þökk sé betri markatölu.
Ísland mætir Noregi í lokaumferðinni en Noregur er þegar búinn að tryggja sér þátttökurétt í útsláttarkeppninni.
Athugasemdir