Kári Árnason segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að hann verði líklega klár í slaginn fyrir landsleikinn gegn Kosóvó eftir níu daga.
Kári hefur verið frá keppni í rúman mánuð eftir að sprunga mayndaðist í rifbeini í leik með Omonia Nicosia á Kýpur.
„Ég er að reyna mitt besta til að vera klár í landsleikinn, en get ekki svarað því núna hvort svo verður. Mér finnst samt líklegt að ég verði orðinn klár, og það var alltaf markmiðið sem ég setti mér,“ sagði Kári við Morgunblaðið.
Kári hefur æft með Omonia undanfarið en ekki viljað spila leik til að taka ekki áhættuna á að fá högg.
Kári hefur misst af sex leikjum með Omonia en hann gæti náð einum leik með liðinu áður en kemur að landsleiknum við Kosóvó.
„Það er möguleiki á að ég spili næsta leik á laugardag en við metum stöðuna dag frá degi og ég fer í myndatöku reglulega til að sjá hvernig beinið grær,“ sagði Kári við Morgunblaðið.
Athugasemdir