Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fim 11. maí 2017 20:23
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Siggi Víðis: Undrandi á því að teyminu var ekki vísað frá
Segir að uppsögn Arnars hafi verið óvænt og döpur
Sigurður er bráðabirgðaþjálfari Blika. Hér er hann með Arnari Grétarssyni.
Sigurður er bráðabirgðaþjálfari Blika. Hér er hann með Arnari Grétarssyni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Æfingin gekk vel. Þetta rúllaði allt mjög fínt," segir Sigurður Víðisson við Fótbolta.net en hann mun stýra Breiðabliki gegn Stjörnunni á sunnudag. Blikar eru í þjálfaraleit eftir að Arnar Grétarsson var rekinn eftir tvær umferðir og mun Sigurður, sem var aðstoðarmaður Arnars, stýra leiknum á sunnudaginn.

Hann stýrði síðdegis sinni fyrstu æfingu í undirbúningi fyrir leikinn á sunnudag.

„Ég er bara að fara í einn leik. Þessi uppsögn var mjög óvænt og döpur og menn verða bara að vinna úr þessu. Þetta bar fljótt að og var sérkennilegt, tímasetningin og svona. Nú er bara allt klárt og við erum að undirbúa okkur undir leik. Það er bara svoleiðis."

Sigurður viðurkennir að það sé furðuleg aðstaða að vera að undirbúa leikinn á sunnudag eftir að hafa verið aðstoðarmaður Arnars í gegnum allan veturinn og fyrstu tvo leikina.

„Það er það en leikmenn þekkja rútínuna vel og menn eru ekki að finna upp neitt nýtt," segir Sigurður.

Brottrekstur Arnars hefur verið mikið í umræðunni. Hvaflaði að Sigurði sjálfum að stíga frá borði eftir að Arnar var rekinn?

„Ef hann er rekinn út af árangrinum þá var ég þjálfari þarna líka. Ég var undrandi á því að teyminu yrði ekki bara vísað frá ef þetta var árangurinn sem var að trufla þá. En þú verður bara að ræða þetta við stjórnina."

Hefði Sigurður áhuga á því að halda áfram með liðið í framhaldinu?

„Það hefur ekki verið rætt neitt. Fókusinn er að klára Stjörnuleikinn, það er bara næsta verkefni. Svo er bikarleikur á miðvikudaginn og aftur leikur á sunnudeginum. Það er nóg að gera. Stjórnin sér bara um að pæla í þessum þjálfaramálum, ég er bara aðstoðarþjálfari," segir Sigurður.

En vill hann ekkert útiloka?

„Ég sé mig ekkert taka við þessu, það var ekkert planið þegar ég byrjaði í þessu. Stjórnin er bara að leita á fullu skilst mér. Ég veit jafnmikið um það og þú."

Sigurður er annars bjartsýnn fyrir leikinn á sunnudaginn.

„Fjölnisleikurinn var miklu betri en KA leikurinn, við erum bara að vaxa og verða betri. Ég hef fulla trú á því að við klárum þetta á sunnudaginn. Stjarnan er með hörkulið sem er að spila vel, þetta verður hörkuleikur eins og alltaf milli þessara félaga. Það er smá „derby" stemning yfir þessu."
Athugasemdir
banner
banner
banner