Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mán 07. ágúst 2017 15:05
Elvar Geir Magnússon
Bestur í 13. umferð: Hann hefur vantað greddu í að skora
Andre Bjerregaard (KR)
Andre Bjerregaard var valinn maður leiksins eftir sigur KR gegn Víkingi Ólafsvík.
Andre Bjerregaard var valinn maður leiksins eftir sigur KR gegn Víkingi Ólafsvík.
Mynd: KR
Bjerregaard kom frá Horsens.
Bjerregaard kom frá Horsens.
Mynd: Getty Images
Danski sóknarmaðurinn Andre Bjerregaard hjá KR hefur verið valinn leikmaður 13. umferðar Pepsi-deildarinnar. Hann gerði Víkingi Ólafsvík lífið leitt þegar KR vann 4-2 sigur í Vesturbænum í síðustu viku.

Bjerregaard fer frábærlega af stað í liði KR og gerir aðra leikmenn í kringum sig betri. Fótbolti.net ræddi við Arnar Gunnlaugsson, aðstoðarþjálfara KR, eftir sigurinn gegn Ólsurum og fór hann fögrum orðum um nýjasta liðsmanninn.

„Hann kemur með nýja vídd í okkar lið. Við erum komnir með miklu meiri möguleika en við höfðum fyrr á tímabilinu. Koma hans hefur komið með miklu meiri fjölbreytni í okkar sóknarleik. Við höfum kannski verið að spila vel úti á velli en ekki ógnað nægilega vel inn í teig eða innfyrir varnirnar. Hann getur spilað úti á kanti eða fyrir miðju. Koma hans hefur gert það að verkum að við sköpum fleiri færi og skorum meira," segir Arnar.

Ýmsar efasemdarraddir heyrðust þegar KR-ingar fengu Bjerregaard til sín í glugganum enda hefur hann ekki verið að skora mikið.

„Þrátt fyrir þann stutta tíma sem ég hef unnið með honum þá skil ég að hann hafi skorað lítið, hann hefur verið að spila vel og skapað en vantað sjálfur greddu í að skora. Við sögðum við hann í hálfleik að hugsa eins og senter sem vill skora og fá mörk. Hann hefur gert tvö mörk í þremur leikjum hjá okkur," segir Arnar en Bjerregaard kom til KR frá Horsens.

„Þó markahlutfallið hans í Danmörku sé ekki sérstakt þá hefur hann spilað með góðu liði i sjö ár og spilað fullt af leikjum. Hann hefur kannski verið sáttur með að spila vel þó hann hafi ekki skorað, við viljum breyta því hugarfari hjá honum."

KR-ingar sýndu á löngum köflum frábæra spilamennsku gegn Ólsurum og hefðu í raun átt að vinna stærri sigur. Bjerregaard ræddi við fjölmiðla eftir leikinn.

„Við komum í leikinn á eldi og óðum í færum í fyrri hálfleik. Við byrjuðum seinni hálfleik hægt og hleyptum þeim inn í leikinn. En það eru mikil gæði í liðinu sem hjálpuðu til við að klára þetta," sagði Bjerregaard eftir leikinn. „Við höfum frábæra leikmenn í liðinu og getum spilað boltanum svo vel. Við létum þá hlaupa og hlaupa."

Bjerregaard skoraði flott mark með þrumufleyg og kom KR í 3-2.

„Ég hitti boltann nokkuð vel. Tobias (Thomsen) var mjög sterkur í þessum leik. Hann var mjög mikilvægur í því að ná að halda boltanum."

KR-ingar hafa verið flottir að undanförnu og náð að tengja saman þrjá sigurleiki í röð. Þeir eru í fimmta sæti, aðeins tveimur stigum frá öðru sætinu.

„Ég er ánægður með að vera hérna og elska að spila hér og æfa. Við erum með gott lið og ég er ánægður," sagði Bjerregaard en viðtalið má sjá í sjónvarpinu hér að neðan.

Sjá einnig:
Leikmaður 12. umferðar - Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik)
Leikmaður 11. umferðar - Hallgrímur Mar Steingrímsson (KA)
Leikmaður 10. umferðar - Kenan Turudija (Víkingur Ó.)
Leikmaður 9. umferðar - Arnór Sveinn Aðalsteinsson (KR)
Leikmaður 8. umferðar - Haukur Páll Sigurðsson (Valur)
Leikmaður 7. umferðar - Sindri Snær Magnússon (ÍBV)
Leikmaður 6. umferðar - Emil Lyng (KA)
Leikmaður 5. umferðar - Arnar Már Guðjónsson (ÍA)
Leikmaður 4. umferðar - Andri Rúnar Bjarnason (Grindavík)
Leikmaður 3. umferðar - Aleksandar Trninic (KA)
Leikmaður 2. umferðar - Hilmar Árni Halldórsson (Stjarnan)
Leikmaður 1. umferðar - Steven Lennon (FH)
Bjerregaard: Furðulegur fótboltaleikur
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner