Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   þri 02. maí 2017 13:15
Magnús Már Einarsson
Bestur í 1. umferð: Gerðist vegan í byrjun árs
Steven Lennon (FH)
Lennon í leiknum á sunnudag.
Lennon í leiknum á sunnudag.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Lennon fagnar fyrsta marki sínu á Akranesi.
Lennon fagnar fyrsta marki sínu á Akranesi.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Fyrri hálfleikur er líklega sá besti sem ég hef spilað á Íslandi. Ég var mjög ánægður með hann," sagði Steven Lennon við Fótbolta.net en hann er leikmaður fyrstu umferðar í Pepsi-deildinni.

Lennon fór á kostum í 4-2 sigri FH á ÍA en hann skoraði þrennu. Skotinn er sex kílóum léttari en í fyrra og með 5% minni fituprósentu.

„Ég ákvað þetta sjálfur. Heimir (Guðjónsson) ræddi við mig eftir að ég missti 1-2 kíló og sagði að ég virkaði léttari og snarpari. Hann sagði mér að vera ekki mikið í ræktinni og reyna að vera frekar snarpari heldur en líkamlega sterkur. Í dag er ég jafn þungur og ég var þegar ég var í Fram árið 2011 og 2012 og þetta lítur vel út," sagði Lennon.

Vildi vera þyngri þegar hann var fremstu
Lennon er í frjálsri sóknarstöðu í 3-4-3 kerfi FH í dag eftir að hafa áður spilað sem fremsti maður.

„Ég var í ræktinni á hverjum degi í fyrra. Þegar ég spilaði fremstur þá reyndi ég að vera þyngri og með meiri vöðva til að eiga við miðverðina. Núna er ég að spila í annarri stöðu þar sem ég þarf að vera aðeins fljótari og hlaupa aðeins meira. Ég held að það hjálpi að vera ekki jafn þungur," sagði Lennon sem hefur breytt mataræði sínu talsvert.

„Ég var vegan í 2-3 mánuði í byrjun árs. Ég gerði það þangað til við fórum í æfingaferð á Marbella í mars. Maturinn þar var ekki góður og ég þurfti að fara aftur í gamla mataræðið. Síðan þá hef ég farið aftur í vegan fæði og það hefur gefið góða raun."

Fékk hjálp frá Bergsveini með mataræðið
Bergsveinn Ólafsson, varnarmaður FH, hefur verið vegan í tvö ár eins og hann ræddi á Fótbolta.net í fyrra. Lennon fékk hjálp frá Bergsveini þegar hann byrjaði að vera vegan.

„Hann er alltaf að segja öllum frá mataraæði sínu. Hann hjálpaði mér í byrjun með því að gefa mér lista yfir það sem er best að borða fyrir þá sem eru vegan. Ég vil þakka honum fyrir að hjálpa mér," sagði Lennon.

Leikmaður umferðarinnar hjá Fótbolta.net fær pizzuveislu hjá Domino's að launum. „Ég þarf að láta einhvern annan fá pizzurnar," sagði Lennon léttur í bragði um verðlaunin. „Nei, nei. Þú getur fengið þér Domino's af og til. Það er í lagi."

Spenntur fyrir að kljást við Guðmann
Næsti leikur FH er gegn nýliðum KA á Kaplakrikavelli næstkomandi mánudagskvöld. „Ég sagði í síðustu viku að KA verði betri en margir búast við. Mér finnst þeir vera með mjög gott lið. Þeir unnu okkur 2-1 í Lengjubikarnum en leikirnir á sumrin eru auðvitað öðruvísi en á veturnar. Þeir hafa góða leikmenn og þetta verður góður leikur."

Guðmann Þórisson, fyrrum varnarmaður FH, er í hjarta varnarinnar hjá KA. „Ég get ekki beðið eftir að spila við hann. Það eru alltaf erfiðir leikir þegar þú spilar gegn honum. Hann kemur stundum seint í tæklingar. Það verður gaman að mæta honum," sagði Lennon að lokum.
Athugasemdir
banner
banner