banner
   sun 18. ágúst 2019 23:49
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ísland spilar ekki á nýjum þjóðarleikvangi Albaníu
Icelandair
Úr leik Íslands og Albaníu á Laugardalsvelli í júní.
Úr leik Íslands og Albaníu á Laugardalsvelli í júní.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Ísland heldur í næsta mánuði áfram vegferð sinni í undankeppni EM 2020. Eftir tvo sigra í júní er Ísland í fínum málum, með níu stig að fjórum leikjum loknum.

Í næsta mánuði spilar Ísland tvo leiki; gegn Moldavíu á Laugardalsvelli og gegn Albaníu ytra. Leikur Albaníu og Íslands er 10. september, en Ísland mætir Moldavíu 7. september.

Ísland vann Albaníu 1-0 á Laugardalsvelli og það má búast við erfiðum útileik í Albaníu.

Albanir eru í þessum skrifuðu orðum að byggja glæsilegan þjóðarleikvang. Stefnt er að því að hann verði vígður í næsta mánuði, en Ísland mun ekki spila á honum. Það var stefnt á það í fyrstu að spila í Tirana, en það er ljóst núna að leikur Íslands og Albaníu verður í Elbasan.

Qemal Stafa völlurinn, sem Ísland vann Albaníu 2-1 á í undankeppni HM 2014, var rifinn 2016 og er Arena Kombëtare risinn í hans stað. Það er verið að leggja lokahönd á þann leikvang, sem rúmar 22,500 áhorfendur.

Stefnt var á það að opna völlinn í byrjun 2019 en framkvæmdir hafa aðeins tafist, eins og gengur og gerist.

Nýi leikvangurinn er í Tirana, höfuðborg Albaníu, en einnig verður Marriott-hótel hluti af leikvanginum.

Eins og áður segir þá mun Ísland ekki spila þarna. Þess í stað munu strákarnir okkar spila í Elbasan. Sá völlur tekur 12.800 áhorfendur.

Hér að neðan má sjá myndbönd af því hvernig nýi leikvangurinn í Albaníu lítur út.




Athugasemdir
banner
banner
banner