Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   mið 20. júní 2007 23:28
Magnús Már Einarsson
Umfjöllun: KRingar fóru tómhentir frá Kópavogi.
Sigmann Þórðarson skrifar úr Kópavogi
Gunnlaugur Jónsson varnarmaður KR og Aaron Palomares í baráttu um boltann.
Gunnlaugur Jónsson varnarmaður KR og Aaron Palomares í baráttu um boltann.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Stuðningsmenn HK höfðu ríka ástæðu til að fagna í kvöld.
Stuðningsmenn HK höfðu ríka ástæðu til að fagna í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Grétar Ólafur Hjartarson á skot að marki.
Grétar Ólafur Hjartarson á skot að marki.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Aaron og Óskar Örn Hauksson berjast um knöttinn.
Aaron og Óskar Örn Hauksson berjast um knöttinn.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
HK 2 - 0 KR
1-0 Jón Þorgrímur Stefánsson (35´)
2-0 Oliver Jaeger (69’)

HK sigraði KR á Kópavogsvelli í kvöld í 7. umferð Landsbankadeildar karla. Segja má að HKingar hafi nýtt einu færi sín í leiknum því KRingar höfðu tögl og hagldir allan leiktímann en náðu ekki að nýta þann urmul færa sem þeir sköpuðu sér. HKingar beittu hins vegar skyndisóknum og uppskáru ríkulega í leikslok.

KRingar töpuðu þarna sínum 6. leik af 7 í sumar og sitja því enn einir á botninum með aðeins eitt stig. HKingar sem flestir spáðu botnsætinu fyrir mót unnu þarna hins vegar mikilvægan sigur sem kom þeim upp í 5. sæti og geta nýliðarnir vel við unað eftir ágæta byrjun.

Leikurinn í kvöld fór rólega af stað en þó voru það gestirnir í KR sem byrjuðu betur. Fyrsta færi þeirra kom eftir rúmlega tuttugu mínútna leik en það átti Atli Jóhannsson sem fékk góða sendingu frá hægri inn í teiginn frá Grétari Ólafi Hjartarsyni. Skot Atla varði hins vegar Gunnleifur Gunnleifsson í marki HK, en hann átti eftir að koma mikið við sögu.

Sókn KR hélt áfram, og tók raunar aldrei enda í fyrri hálfleik. Örfáum mínútum síðar var Skúli Jón Friðgeirsson nálægt því að skora eftir vandræðagang í vörn HK. En fyrsta mark leiksins kom hins vegar á 35. mínútu og það hinu megin á vellinum.

HKingar fengu aukaspyrnu á vallar helmingi KR. Löng sending kemur fyri markið á stöngina fjær þar sem Hólmar Örn Eyjólfsson skallaði boltann fyrir markið á Jón Þorgrím Stefánsson sem skallaði hann í netið. Heimamenn voru komnir yfir og hreinlega ekki hægt að segja annað en það hafi verið gegn gangi leiksins.

KRingar reyndu allt hvað þeir gátu það sem eftir lifði hálfleiks, en urðu einskis ágengt. Næst komst þó Grétar Ólafur sem átti gott skot utan teigs sem Gunnleifur varði vel í marki HK. Gunnleifur var án nokkurs vafa besti maður HK í þessum leik en það var ekki síst honum að þakka að HK fór inn í hálfleik með forystu.

Hálfleiksræða Teits Þórðarsonar var greinilega snörp því þeir voru mættir út lögu á undan HKingum og höfðu þar að auki gert tvær breytingar á liðinnu strax í hálfleik. Jóhann Þórhallsson kom í sóknina fyrir Björgólf Takefusa og Óskar Hauksson fór á vinstri kantinn í stað Atla.

KR ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti. Varamaðurinn Óskar var ekki lengi að koma sér í færi en skot hans fór rétt framhjá eftir að hann hafi leikið á nokkra varnarmenn HKinga. Nokkrum mínútum síðar átti Skúli Jón ágætt skot við vítateigslínuna eftir gott samspil við Grétar Ólaf en Gunnleifur varði vel frá honum. Enn og aftur.

Eftir um það bil klukkutíma leik skoraði Jóhann mark sem var dæmt af vegna rangstöðu. Vafasamur dómur sem fór illa í KRinga. Þeir héldu þó áfram að sækja og stuttu seinna átti Grétar Ólafur gott skot að markinu sem Gunnleifur varði til hliðar út í teiginn. Þar náði Skúli Jón boltanum og sendi hann fyrir á Óskar sem skallaði boltann framhjá af stuttu færi.

Nokkrum mínútum síðar fengu HKingar fína skyndisókn. Finnur Ólafsson sendi þá boltann inn fyrir á Jón Þorgrím en Gunnlaugur Jónsson elti hann uppi og náði að renna sér fyrir skotið. Flott sókn heimamanna og jafnframt eina færi þeirra sem fór forgörðum.

Tuttugu mínútum fyrir leikslok bættu heimamenn við forystuna. Oliver Jaeger fékk þá háa sendingu fram sem hann náði á undan varnarmönnum KR. Hann vippaði svo yfir Kristján Finnbogason í markinu og skallaði að endingu boltann í netið og gulltryggði sigur heimamanna.

Eftir seinna mark HK sloknaði á KRingum sem þó héldu áfram að sækja en augljóst var að sigurviljinn hafði slokknað. Leikurinn endaði því með sigri HK sem eins og fyrr segir er komið upp í fimmta sæti með 11 stig. KRingar sitja eftir með 1 stig eftir 7 umferðir og eru langt frá þeim væntingum sem þeirra eigin stuðningsmenn gera til liðsins.

HK (4-5-1): Gunnleifur Gunnleifsson, Stefán Eggertsson, Ásgrímur Albertsson, Finnbogi Llorens, Davíð Magnússon, Hólmar Eyjólfsson, Finnur Ólafsson, Rúnar Sigmundsson (70. Þórður Birgisson), Jón Stefánsson (70. Calum Bett), Aaron Palomares, Eyþór Guðnason (65. Oliver Jaeger).
Ónotaðir varamenn: Ólafur Júlíusson, Bjarki Sigvaldason, Almir Cosic, Stefán Halldórsson.

KR (4-4-2): Kristján Finnbogason, Eggert Einarson, Gunlaugur Jónsson (F), Pétur Marteinsson, Guðmundur Gunnarsson, Atli Jóhannsson (45. Óskar Hauksson), Kristinn Magnússon, Sigmundur Kristjánsson, Skúli Friðgeirsson, Björgólfur Takefusa (45. Jóhann Þórhallsson), Grétar Hjartarson (64. Henning Jónasson).
Ónotaðir varamenn: Vigfús Jósepsson, Stefán Magnússon, Guðmundur Pétursson, Ingimundur Óskarsson.

Maður leiksins: Gunnleifur Gunnleifsson.
Dómari: Ólafur Ragnarsson.
Veður: Skýjað, hlýtt og logn.
Áhorfendur: 1241.


Hér að neðan eru fleiri myndir úr leiknum í kvöld sem að Gísli Baldur Gíslason tók.



Athugasemdir
banner
banner
banner