Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   lau 10. maí 2008 17:10
Þórður Már Sigfússon
Umfjöllun: FH kjöldró HK á Kópavogsvelli
Atli Viðar Björnsson fagnar fyrsta marki leiksins
Atli Viðar Björnsson fagnar fyrsta marki leiksins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Guðnason, sem átti frábæran leik fyrir FH, í baráttunni
Atli Guðnason, sem átti frábæran leik fyrir FH, í baráttunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnleifur Gunnleifsson á flugi í leiknum í dag
Gunnleifur Gunnleifsson á flugi í leiknum í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi Guðmundsson sýndi frábæra takta í dag
Tryggvi Guðmundsson sýndi frábæra takta í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Viðar Björnsson í eldlínunni
Atli Viðar Björnsson í eldlínunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK 0 - 4 FH
0-1 Atli Viðar Björnsson ('15)
0-2 Jónas Grani Garðarsson ('22)
0-3 Atli Guðnason ('61)
0-4 Tryggvi Guðmundsson ('77)

HK tók á móti FH á Kópavogsvelli í dag og voru aðstæður góðar, hægur vindur en skýjað og völlurinn í góðu ásigkomulagi undan vetrinum.

Skemmst er frá því að segja að gestirnir úr Hafnarfirðinum voru fremri á öllum sviðum fótboltans og tryggðu sér verskuldaðan 0-4 sigur á arfaslökum HK-ingum. Tryggvi Guðmundsson fór þar fremstur í flokki en hann átti nánast óaðfinnanlegan leik úti á vinstri kantinum og var sífellt ógnandi. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði eitt mark og lagði auk þess upp hin þrjú mörk Hafnfirðinga.

Nokkuð var um forföll í liði HK því þeir Iddi Alkhag, Hörður Már Magnússon, Hörður Árnason, Þórður Birgisson, Bjarki Már Sigvaldason og Kristján Ari Halldórsson eiga allir við meiðsli að stríða. Sem þýddi að hinn 16 ára gamli Zlatan Krickic tók sæti á varamannabekknum.

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, gat ekki stólað á þá Ásgeir Gunnar Ásgeirsson og Bjarka Gunnlaugsson sem eru frá vegna meiðsla ásamt Ísfirðingnum unga, Birki Sverrissyni. Þá lék Freyr Bjarnason í stað Höskuldar Eiríksonar við hlið Tommy Nielsen í hjarta varnarinnar.

Fátt markvert gerðist á upphafsmínútunum en gestirnir úr Hafnarfirðinum voru þó nokkuð meira með boltann og var Tryggvi Guðmundsson þegar farinn að láta til sín taka með nokkrum góðum rispum upp vinstri kantinn.

Fyrsta færi leiksins leit dagsins ljós á 8. mínútu þegar Davíð Þór Viðarsson átti fastan skalla sem fór rétt framhjá marki HK-inga. Einungis andartaki síðar barst boltinn til Tryggva Guðmundssonar frá Guðmundi Sævarssyni en Tryggvi skaut yfir úr upplögðu færi.

Heimamenn virkuðu þungir og seinir á meðan FH-ingar héldu áfram að vera aðgangsharðir upp við markið og þess var því ekki langt að bíða þar til fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós.

Tryggvi Guðmundsson átti þá góða fyrirgjöf utan af vinstri kanti sem rataði til Atla Viðars Björnssonar sem skoraði gott mark framhjá Gunnleifi Gunnleifssyni í markinu hjá HK.

Með 1-0 forystu í farteskinu eftir 14. mínútna leik náðu FH-ingar undirtökunum og einungis átta mínútum síðar kom annað mark liðsins eftir frábæran undirbúning, aftur frá Tryggva Guðmundssyni.

Tryggvi, sem var allt í öllu í sóknarleik FH-inga, átti þá frábæra sendingu inná markteig HK þar sem Jónas Grani Garðarsson kom aðvífandi og skaut hnitmiðuðu skot í bláhornið framhjá Gunnleifi Gunnleifssyni, 0-2.

Varnarmenn HK voru ósamstilltir gegn sóknaraðgerðum FH-inga sem voru mjög sókndjarfir og átti heimaliðið í miklum erfiðleikum með að halda boltanum þar sem háloftaspyrnur liðsins misstu oftast marks.

HK-ingar hresstust þó aðeins þegar líða tók á hálfleikinn en voru mislagðar fætur upp við mark FH-inga þegar á hólminn var komið.

Tryggvi Guðmundsson tók síðan enn eina rispuna á 39. mínútu og átti hættulega fyrirgjöf inn á vítateig HK-inga en liðsfélagar hans náðu ekki að gera sér mat úr henni.

Á 43. mínútu bitu HK-ingar aðeins frá sér þegar Almir Cosic komst inn fyrir vörn FH-inga en slakt skot hans endaði í varnarmanni og framhjá markinu.

Mínútu síðar átti hægri bakvörður FH-inga, Guðmundur Sævarsson, frábæra sendingu inná vítateig HK en Jónas Grani Garðarsson náði ekki að koma boltanum fyrir sig og skaut beint á Gunnleif Gunnleifsson.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn örlítið betur en þeir luku þeim fyrri og komst Almir Cosic, sem var hvað hættulegastur HK-inga, einn inn fyrir vörn FH á 48. mínútu en skot hans fór rétt framhjá markinu. Stuttu síðar átti hann skalla sem fór einnig framhjá markinu.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik átti daninn Dennis Siim hættulega sendingu inná markteig HK-inga en varnarmenn liðsins björguðu í horn á síðustu stundu.

Stuttu síðar átti HK-ingurinn Stefán Eggertsson fína rispu upp hægri kantinn og átti fína sendingu fyrir markið. Boltinn rúllaði þá þvert yfir vítateig FH-inga án þess að nokkur HK-ingur næði að pota í hann.

Þriðja naglann í líkkistu HK-inga negldi síðan Atli Guðnason, sem var mjög hættulegur í framlínu FH-inga, en hann skoraði frábært mark eftir stórkostlega fyrirgjöf frá títtnefndum Tryggva Guðmundssyni.

Atli reis hæst í vítateignum og fastur skalli hans söng í netinu án þess að Gunnleifur Gunnleifsson kæmi neinum vörnum við. Frábært mark og staðan 0-3 eftir rúmlega sextíu mínútna leik.

HK-ingar voru gersamlega heillum horfnir en Hörður Magnússon komst samt sem áður í ágætis færi en skot hans, sem stefndi á FH markið, hafnaði í samherja, Almir Cosic.

Fátt markvert gerðist eftir þriðja markið nema hvað HK-ingar tóku upp á því að brjóta illa af sér og féllu gul spjöld í skaut Stefáns Jóhanns Eggertssonar og Atla Valssonar.

FH-ingar voru með öll völd á vellinum og Tryggvi Guðmundsson fullkomnaði síðan frábæran leik sinn með marki á 77.mínútu þegar hann rak smiðshöggið á hnitmiðaða sendingu Atla Guðnasonar. Arkitektinn var þó Matthías Vilhjálmsson, þá nýkominn inná sem varamaður, sem lék á varnarmann HK við vítateigsjaðarinn áður en hann gaf boltann á Atla sem síðan fann Tryggva á auðum sjó upp við mark heimamanna.

Leikurinn fjaraði út eftir fjórða markið enda slakir HK-ingar löngu búnir að játa sig sigraða og lokatölur því 0-4.

Tryggvi Guðmundsson átti frábæran leik eins og nánast allt FH liðið og Atli Guðnason sýndi og sannaði að hann á heima í byrjunarliðinu með frábærri frammistöðu. Hins vegar stendur eftir að FH-ingar þurftu þó ekki að hafa mikið fyrir hlutunum gegn arfaslöku liði HK.




HK (4-3-3): Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M) (F); Stefán Eggertsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Finnbogi Llorens, Atli Valsson; Goran Brajkovic, Almir Cosic(Aaron Palomares 72), Finnur Ólafsson; Hörður Magnússon (Þorlákur Helgi Hilmarsson 72), Hermann Geir Þórsson, Mitja Brulc.

Ónotaðir varamenn: Ögmundur Ólafsson (M), Ásgrímur Albertsson, Zlatko Krickic, Calum Þór Bett, Eyþór Helgi Birgisson.

FH (4-3-3): Daði Lárusson (M) (F); Guðmundur Pétursson, Freyr Bjarnason, Tommy Nielsen, Hjörtur Logi Valgarðsson; Davíð Þór Viðarsson, Dennis Siim (Arnar Gunnlaugsson 79), Jónas Grani Garðarsson (Matthías Vilhjálmsson 75); Atli Viðar Björnsson (Heimir Snær Guðmundsson 79), Tryggvi Guðmundsson, Atli Guðnason.

Ónotaðir varamenn: Gunnar Sigurðsson (M), Halldór Kristinn Halldórsson, Björn Daníel Sverrisson, Matthías Guðmundsson.

Maður leiksins: Tryggvi Guðmundsson, óaðfinnanlegur.
Gul spjöld: Stefán Jóhann Eggertsson ´63 (HK), Atli Valsson ´70 (HK).
Dómari: Þóroddur Hjaltalín, góður.
Aðstæður: Góðar.
Áhorfendur: 1340.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner