Þessa dagana fer fram opna Norðurlandamótið hjá landsliðum U16 ára kvenna hér á landi. Athygli vakti í leik Þýskalands og Noregs á Hvolsvelli í gær að íslensk stúlka leikur sem miðvörður í liði Noregs.
Hún heitir María Þórisdóttir og hefur alla sína ævi búið í Noregi.
Hún á norska móður og íslenskan föður en hann heitir Þórir Hergeirsson og er aðstoðarþjálfari kvennalandsliðs Norðmanna í handknattleik.
Við hittum Maríu að máli eftir leikinn á Hvolsvelli í gær en sjálf þurfti hún að fara af velli í hálfleik eftir að hafa fengið slæmt höfuðhögg og var vart búin að jafna sig þegar við náðum á hana.
,,Ég á heima í Noregi og hef búið þar síðan ég fæddist og spila fótbolta í Noregi," sagði María á mjög góðri íslensku við Fótbolta.net.
,,Pabbi talar íslensku heima," bætti hún við en móðir hennar er norsk.
,,Ég kem til Íslands einu sinni á ári," sagði María sem á ættir sínar að rekja á Selfoss. Í dag mun hún svo spila með norska liðinu gegn því íslenska á Þorlákshafnarvelli. ,,Það verður bara gaman," sagði hún.
Þrátt fyrir að hafa spilað með U16 ára liði Noregs er hún enn gjaldeng í íslensk landslið því hún hefur ekki enn leikið með A-landsliði.
Við spurðum hana hvort hún myndi vera tilbúin að spila með íslenska landsliðinu ef hún fengi kallið.
,,Ég veit það ekki alveg, kannski, kannski ekki," sagði María.
,,En ég held ég verði áfram í norska liðinu. Það er samt skemmtilegt að vera hálfur Íslendingur. Ég fylgist alltaf vel með öllu á Íslandi og er alltaf í símasambandi við ömmu og afa."
María spilar sína knattspyrnu í Noregi en er að spila í fyrsta sinn hér á landi núna með norska U16 ára liðinu. En þekkir hún eitthvað til íslenska boltans?
,,Nei, ég þekki ekkert til íslenska boltans, ég hef heyrt af einni stelpu frá Selfossi sem frændi minn hefur sagt mér svolítið frá en ég veit samt ekki alveg hver hún er," sagði hún.
Leikurinn á Hvolsvelli í gær fór illa fyrir norska liðið því Þjóðverjar burstuðu þær 7-0. En María lenti einnig í því óhappi að fá höfuðhögg og varð því að fara af velli í hálfleik eftir að hafa átt mjög góðan leik sem miðvörður í þeim fyrri.
,,Það kom stelpa og skallaði í mig og ég fékk verk í höfuðið sem tekur svolítinn tíma að fara. Það var ekki gaman að tapa þessu svona stórt, Þjóðverjarnir eru mjög góðir en við höfðum unnið þær 2-1 í maí. Það var mjög gaman þá en svo töpum við svona stórt núna."
María var að leika sinn þriðja leik með U16 ára landsliði Noregs en þegar við spurðum hana hvort hún stefndi ekki á að komast í A-landsliðið í framtíðinni gat hún ekki gefið ákveðið svar enda er hún ekki viss hvort hún spili fótbolta áfram.
,,Kannski, en ég er í handbolta líka," sagði hún aðspurð hvort hún stefndi í A-landsliðið.
,,Ég er líka í landsliðinu í handbolta og er að fara til Frakklands að spila með því á móti."
Handboltinn togar einnig nokkuð í Maríu en faðir hennar, Þórir Hergeirsson, er aðstoðarþjálfari norska kvenna handboltalandsliðsins. Er þá ekki pressa á hana að taka handboltann framyfir?
,,Nei, hann segir bara að ég eigi að velja það sem ég vil. Ég ætla að vera í fótbolta og handbolta í allavega eitt ár í viðbót og svo mun ég kannski velja á milli," sagði María en aðspurð að lokum sagðist hún ekki vilja aðra greinina meira en hina eins og staðan er núna.
Athugasemdir